139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

427. mál
[16:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Því er til að svara að ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum síðasta haust í Reykjanesbæ að kanna skyldi með vönduðum hætti hvort flytja bæri starfsemi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja, á öryggissvæðið á Miðnesheiði, og sú könnun er nú í gangi. Af minni hálfu er meginforsenda þess að gera tillögu um þennan flutning starfsemi Landhelgisgæslunnar að óyggjandi sé að ekki sé óhagkvæmara að reka stofnunina þar en hér í Reykjavík. Við stefnum að því að niðurstaðan liggi fyrir í febrúarmánuði eins og stefnt var að.

Það er ýmislegt sem blandast inn í þessa umræðu, þar á meðal er núna verið að fjalla um niðurlagða Varnarmálastofnun og hvernig ráðstafa skuli starfsemi sem tengdist henni. Vinna fer fram um það efni en þessi sérstaka hagkvæmniskönnun er í gangi. Sérstaklega er spurt um persónulega skoðun mína vegna þess að afstaða ríkisstjórnarinnar liggur fyrir. Mín persónulega skoðun fer algjörlega saman við afstöðu ríkisstjórnarinnar, að það eigi að kanna þetta en að fenginni niðurstöðu þeirrar könnunar taki menn endanlega afstöðu til málsins, að sjálfsögðu ekki fyrr því að þá væri til lítils að ráðast í þessa úttekt.