139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

427. mál
[17:03]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hef miklar efasemdir um þær lausnir á vandamálum í skammtíma og langtíma í ýmsum héruðum og byggðarlögum að taka stofnun í Reykjavík og flytja hana á svæðið og láta hana detta þar niður. Þar með á að skapast atvinna og þar með eiga allir að vera ánægðir. Þetta er sú lausn sem sveitarstjórnarmenn og héraðshöfðingjar og smákóngar finna upp.

Það getur vel verið að hagkvæmt sé að hafa Landhelgisgæsluna á þessum stað, það verður að kanna, en skilyrðið er hiklaus og óefanleg hagkvæmni. Það er líka skilyrði þessa máls að talað sé við forustumenn þess sveitarfélags þar sem Landhelgisgæslan hefur miðstöð nú, bæði sveitarstjórnarmennina, forustumenn í atvinnufyrirtækjum og forustumenn í verkalýðsfélögum. Það verður líka að hlusta á það sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa um þetta að segja og það verður að hlusta á hvað sjómönnum finnst gott í þessu máli. Ég let ráðherra eindregið til þess (Forseti hringir.) að taka skjótar ákvarðanir í þessu efni og bið hann að undirbúa þær sem best má verða.