139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

427. mál
[17:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Ég þakka fyrir þessa umræðu. Þegar rætt hefur verið almennt um fjárframlög hins opinbera til Suðurnesja hafa þingmenn á Alþingi mjög oft fært þau rök fyrir því af hverju við látum þau hafa minni framlög að það sé svo stutt að fara til Reykjavíkur. Ég held að ég verði að benda á að það er alveg jafnstutt í hina áttina þannig að þessi rök gilda náttúrlega líka. Fyrst við höfum ekki haldið niðri framlögum á mörgum öðrum sviðum ætti augljóslega að vera hægt að sýna fram á að það sé heilmikil hagkvæmni að fara bara í hina áttina.

Það sem er svo frábært við umræðuna núna er að við erum ekki aðeins að tala um að flytja Landhelgisgæsluna á annan stað heldur að sameina hana hluta af þeim verkefnum sem hún hefur nú þegar tekið við frá Varnarmálastofnun. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið innan beggja þessara stofnana telja þeir starfsmenn sem ég hef rætt við að það mundi styrkja mjög þau verkefni sem Landhelgisgæslan sinnir núna ef hún færi suður eftir og héldi þeim verkefnum sem hafa komið frá Varnarmálastofnun áfram innan Landhelgisgæslunnar.

Ég bendi líka á að það ætti að vera hægt að vinna þessa hagkvæmnisathugun mjög hratt vegna þess að mikil forvinna var unnin þegar starfshópur vann að tillögu um hvernig standa ætti að niðurlagningu Varnarmálastofnunar á sínum tíma. Eitt af því sem hann benti á var einmitt möguleikinn á að Landhelgisgæslan tæki yfir verkefni Varnarmálastofnunar og þarna væru mjög mikil samlegðaráhrif, sérstaklega ef menn horfðu til þeirrar aðstöðu sem Varnarmálastofnun hefur haft yfir að ráða á Suðurnesjum.

Síðan hefur Landhelgisgæslan náttúrlega þurft að búa við það eins og flestar aðrar opinberar stofnanir að skorið hefur verið niður til hennar, en í framtíðinni geri ég fastlega ráð fyrir því að til þess að tryggja sem best öryggi sjófarenda og fólks í kringum landið muni verða bætt við flugkost stofnunarinnar og þá er alveg ljóst að það er ekki nægilegt pláss á Reykjavíkurflugvelli