139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

umhverfisstefna.

360. mál
[17:17]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir greið svör við ágætri fyrirspurn hv. þm. Eyglóar Harðardóttur hér áðan. Hæstv. ráðherra drap á margt sem ég tel að hafi orðið til framfara og bóta á hans ferli sem ráðherra og ég efast ekki um einlægan vilja hans í því efni miðað við pólitískar skoðanir hans, hjartalag og bakgrunn í menntun og öðrum störfum.

Ég held að það væri gott fyrir þingmenn og þá sem starfa á þeim sviðum sem ráðherrann tekur til að hann léti ráðuneytið taka saman þessa umhverfisstefnu í skriflegu formi þannig að hægt yrði að nálgast hana og sannreyna í báðum ráðuneytum. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður flissar, það er ekki vegna þess að ég sé með einhverja íróníu (Forseti hringir.) heldur meina ég þetta af fullri alvöru. Þá væri betur hægt að komast að því hvernig háttar til í báðum ráðuneytum því að þar er (Forseti hringir.) við nokkuð ramman reip að draga í þessum efnum.