139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

umhverfisstefna.

360. mál
[17:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að blanda mér í þessa umræðu. Það er alveg ljóst að þær atvinnugreinar sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni hafa fylgt meginsjónarmiðum um umhverfisvernd og sjálfbærni. Það hefur glögglega komið fram í sjávarútveginum eins og allir vita og sömuleiðis í landbúnaðinum.

Á vegum sjávarútvegsins hefur talsvert verið unnið að því að búa til umhverfismerki fyrir Ísland. Þau mál eru núna loksins komin í góðan farveg. Við sjáum fram á að það verði hægt að markaðssetja þetta merki á erlendum vettvangi. Sama hafa menn verið að gera í landbúnaðinum hér innan lands.

Ég vil síðan vekja athygli á því, sem ég hygg að hafi komið fram í svari við fyrirspurn hv. málshefjanda í þessari umræðu, að útblástur af gróðurhúsalofttegundum í sjávarútveginum hefur dregist saman á undanförnum árum. Það er auðvitað m.a. vegna þess að kvótakerfið hefur stuðlað að minni sóknartengdum kostnaði og hefur þess vegna verið og er í eðli sínu umhverfisvænt fyrirkomulag sem ég held að við ættum að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál.