139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

umhverfisstefna.

360. mál
[17:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir svör hans og öðrum þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu.

Ég vil sérstaklega taka undir þá tillögu sem hv. þm. Mörður Árnason kom með, að umhverfisstefna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins verði skrifuð niður og komið fyrir á vef ráðuneytisins þar sem við getum öll kynnt okkur hana og þar verði sett fram mjög skýr markmið og tillögur um hvernig eigi að framfylgja henni.

Ég hvet ráðherrann til þess að ná sér í þau áhugaverðu og góðu plögg sem innihalda stefnu Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum, Hafið bláa hafið, og stefnu í landbúnaðarmálum. Það hefur greinilega farið mjög mikil vinna í þessa stefnumörkun hjá flokknum og leitt ef ekki er ætlunin að nýta þá vinnu. Í bæklingnum Hafið bláa hafið kemur meðal annars fram að fiskiskip eyða yfir fimm sinnum meira í jarðefnaeldsneyti en almennur iðnaður hérlendis og frá sjávarútveginum kemur um fjórðungur af losun gróðurhúsalofttegunda ef marka má nýjustu tölur. Þetta álit var samþykkt 2009 hjá Vinstri grænum. Þau beina því væntanlega til sinna þingmanna að það sé löngu tímabært að gera sérstaka áætlun um hvernig eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi og eru með mjög skýrar tillögur í fimm liðum um hvernig það sé hægt. Þar kemur líka fram að vinnsluskipin eyða mestri olíu á hvert kíló af fiskafla þegar hins vegar loðnu-/síldarskipin og kolmunnaskipin eyða minnstu olíunni, næst á eftir koma síðan smábátarnir. Svo benda þau á fiskiðnað og ýmislegt annað.

Ég hvet ráðherrann eindregið til að kynna sér þessa stefnu upp á nýtt og stefnumörkunina, og starfsfólkið í ráðuneytinu líka. Það var mér svolítið áfall þegar menn virtust ekki almennilega skilja hvað ég ætti eiginlega við þegar ég lagði inn þessa fyrirspurn um (Forseti hringir.) umhverfisstefnuna.