139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

umhverfisstefna.

360. mál
[17:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg ágætt hjá hv. þingmanni að rifja upp ágæta stefnu Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum, Hafið bláa hafið, og í landbúnaði og matvælavinnslu. Ég held einmitt að þegar við tókum slaginn um að standa vörð um íslensku búfjárkynin, þar af leiðandi líka matvælavinnslu í landbúnaði, og viðhéldum því banni að flytja inn hrátt ófryst kjöt og lifandi dýr hafi það verið hluti af þeirri umhverfisstefnu sem við erum með hér.

Matvælaiðnaðurinn er ein stærsta atvinnugreinin hér á landi. Það skiptir miklu máli að hún þróist og vaxi á grundvelli þeirrar hugmyndafræði sem hv. þingmaður rakti.

Varðandi orkunotkunina er alveg hárrétt að hún er hið eilífa mál til að berjast fyrir að draga úr, bæði innan landbúnaðar og sjávarútvegs. Þar er aldrei neinu lokamarki náð en nálgunin og hugmyndafræðin á að vera sívirk. Við erum að þróa veiðarfæri sem taka minni orku í að leggja út og draga, svo má lengi halda áfram. Það verður seint of brýnt í þeim efnum.

Þar sem hv. þingmaður vekur athygli á þessu er ýmislegt sem ráðherrann hefur líka gert, eins og að skylda merkingar á matvælum sem innihalda erfðabreytt efni. Nú síðast brugðumst við hratt við með því að setja stopp á svokallaðar transfitusýrur í íslenskum matvælum sem er líka liður í þeirri sömu hugmyndafræði sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) vakti réttmæta athygli á og hvatti til. Ég skal svo sannarlega skoða það að við vinnum skýrslu um allt sem ráðherrann hefur gert (Forseti hringir.) og það sem hann langar til að gera enn betur.