139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég rakst á frétt í morgun þar sem sagði eitthvað á þessa leið: „Við gefumst ekki upp.“ — Ég hélt að verið væri að tala um afmælisdag ríkisstjórnarinnar, að á tveggja ára afmæli minnihlutastjórnar ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í: Góður.) væri fólkið í landinu að hugsa með sér: Ja, þrátt fyrir erfiðleikana skulum við ekki gefast upp. Við berum von í brjósti um betri tíð. En fréttin var reyndar frá Egyptalandi og auðvitað hefur maður samúð með því fólki sem þar er. En ég hef jafnframt miklar áhyggjur af íslensku þjóðinni vegna þess að eftir tvö ár undir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gengur okkur allt of hægt. Okkur gengur of hægt að koma hagkerfinu í gang, okkur gengur of hægt að skapa störf, við höfum lagt of miklar byrðar á heimilin um leið og illa hefur gengið og allt of seint að greiða úr skuldavanda þeirra. Nýfjárfesting í atvinnulífinu er í algeru frosti og undirstöðuatvinnugreinar, eins og t.d. sjávarútvegurinn, búa við mikla óvissu. Ofan á allt þetta bætist að hugmyndir forsætisráðherrans og stjórnarmeirihlutans um endurskoðun á stjórnarskránni hafa nú verið í smíðum í tvö ár með engum árangri og við erum komin aftur á byrjunarreit.

Í dag verður fundur í forsætisráðuneytinu þar sem fjallað verður um það hvernig bregðast eigi við. Mér heyrist á stjórnarmeirihlutanum að áhugi sé fyrr því að endurtaka kosningar til stjórnlagaþings. Það er óþarfi að gera það. Við eigum að taka það verkefni hingað inn í þingið, setja það á dagskrá og hefja endurskoðun á stjórnarskránni. Við höfum allt sem við þurfum til að hefja það verk. (Gripið fram í.)

Samstaðan í dag á að vera með íslensku þjóðinni sem kallar eftir árangri, kallar eftir uppbyggingu, kallar eftir því að héðan frá þinginu komi aðgerðir sem létta undir með fólki og vekja með því einhverja bjartsýni um framtíðina.