139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er kominn til að staðfesta það sem formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sagði, að á fundinum í laga- og mannréttindanefnd var samþykkt að hætta þessari rannsókn, að láta hana niður falla af þeim ástæðum sem formaðurinn tilgreindi. Raunar skildi ég það svo án þess að rengja hann í neinu — fréttirnar bárust bæði á fund í nefndinni og svo á fund sem við héldum sérstaklega með honum, ég og formaðurinn, — að hann teldi einkum að framhaldsvinnsla í málinu kynni að spilla fyrir samningaviðræðum milli Breta og Íslendinga í þessu efni. (Utanrrh: Komst samt að vondri niðurstöðu.) Staðreyndin er samt sú, forseti, og það er ágætt að þingheimur velti því fyrir sér, að Evrópuráðið, sem er þekkt fyrir mannréttindabaráttu og að styðja lítilmagnann og skirrast hvergi við, eins og var reyndar gert á þessum fundi í sambandi við sögu Kosovo, að ráðið telur ekki að neinn grunnur sé til að halda þessari rannsókn áfram. Líklegt er að við höfum í þessu máli reynt að grípa það hálmstrá í vandræðum okkar að betra sé að veifa röngu tré en öngu hvað sem um ástæður Breta má segja. Ég held að við ættum nú, m.a. í tilefni af þingmáli sem verður rætt í dag, að setjast niður og skoða okkar eigin vanda, vinna í okkar eigin málum eins og sagt er á sumum stöðum í samfélaginu frekar en vera að þenja okkur með belging sem ekki gerir neinum gagn.