139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hér hefur verið talað um fúsk í lagasetningu og um eftirlitshlutverk þingsins. Ég er einmitt hingað komin til að ræða eftirlitshlutverk þingsins. Í dag lauk formlega störfum verkefnishópur vegna sameiningar St. Jósefsspítala og Landspítala – háskólasjúkrahúss. Það kemur fram sem ég óttaðist og hef margrætt hér, að um yfirtöku LSH á St. Jósefsspítala verður að ræða. Ég marglýsti því yfir, m.a. við fjárlagagerðina, að ekki væri hægt að standa gegn þessari sameiningu ef starfsöryggi fólks yrði tryggt, sömuleiðis sú gríðarlega mikla þekking sem St. Jósefsspítali hefur unnið sér inn síðustu árin og þjónustustigið líka.

Nú hefur komið í ljós að allt þetta er í töluverðu uppnámi, að mínu mati. Það er verið að færa starfsemi skurð- og svæfingadeildarinnar nú þegar til LSH, til Reykjavíkur. Meltingarsjúkdómarnir færast síðar á árinu, væntanlega verður eftir almenn legudeild, ekki með neina stoðþjónustu, þ.e. rannsóknir og röntgen. Allt sem við vöruðum við er að rætast núna.

Við skulum rifja upp að fyrir tveimur árum urðu mjög mikil mótmæli í Hafnarfirði vegna áætlunar þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Þá var sest niður og málið sett í ákveðinn farveg. Íbúarnir vissu hvað menn voru að fara varðandi þjónustuna á heilbrigðissviði. Ég veit til þess að áhugahópur um St. Jósefsspítala hefur núna lengi reynt að ná samtali við heilbrigðisráðherra en ekki fengið fund. Það sem er að gerast núna er það sem við Hafnfirðingar óttuðumst, í rauninni er um fjandsamlega yfirtöku að ræða. Það er ekki búið að tryggja þjónustuna og t.d. þekkinguna í grindarbotnsteyminu. Það skiptir miklu máli að skurðdeildin og meltingardeildin vinni saman. Það mál er allt upp í loft þannig að ég óttast það sem við vöruðum við, að við náum ekki fram hagræðingu, (Forseti hringir.) að við varðveitum ekki þekkinguna (Forseti hringir.) og heldur ekki þjónustuna með þessu brölti.