139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast aðeins við orðum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um sameiningu St. Jósefsspítala og Landspítala – háskólasjúkrahúss. Við vitum að sameiningar eru alltaf erfiðar. Um það þýðir ekkert að deila þó að við vitum að við þurfum oft að sameina. Hér er fyrst og fremst verið að tala um sameiningu yfirstjórna með tilheyrandi hagræðingu sem felst í færri stjórnendum. Ég bý að þeirri reynslu að hafa búið á Austurlandi þegar öll heilbrigðisþjónusta frá Vopnafirði til Álftafjarðar var sameinuð undir eina stjórn. Þá voru að sjálfsögðu mikil mótmæli. Smám saman náðist sátt um að viðeigandi stofnanir hefðu sína sérhæfingu og ég veit ekki annað en að fólk sé almennt þokkalega sátt þar, a.m.k. miðað við að hægt var að bjarga því slysi sem vofði yfir í sambandi við niðurskurðaráform. Þar er t.d. einungis hægt að fæða börn á einum stað, í Neskaupstað, og ég vona sannarlega að menn taki höndum saman og varðveiti þá þekkingu sem til er í St. Jósefsspítala. Við verðum að líta svo á að höfuðborgarsvæðið sé eitt samgöngusvæði og þó að einhver þjónusta færist yfir til Reykjavíkur frá Hafnarfirði get ég ekki séð að það sé stórkostlegt slys, svo framarlega sem hún varðveitist þar.

Mér þykir sannarlega vænt um St. Jósefsspítala enda fædd og uppalin í Hafnarfirði og ég vona svo sannarlega að þar verði áfram góð þjónusta við Hafnfirðinga. Svona samvinna verður að fá að þróast og smám saman finna menn vonandi út hvernig best er að haga þessari verkaskiptingu. Leyfum þessu samstarfi að þróast og vonum að Hafnfirðingar fái þá þjónustu sem þeir eiga skilið og St. Jósefsspítali (Forseti hringir.) fái að halda reisn sinni.