139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla að halda mig á svipuðum slóðum og síðasti ræðumaður. Ég sat þennan nefndarfund sem þingmaðurinn Valgerður Bjarnadóttir sagði frá og aðrir hafa lýst líka. Ég get sagt að það var afar einkennilegt að upplifa að okkur þingmönnum var meinað að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki okkar. Þetta svokallaða gegnsæja og opna ferli líkist frekar dimmum göngum í kolniðamyrkri þar sem e.t.v. er eitthvert ljós við endann. Ég get tekið undir allt sem hér hefur komið fram.

Mig langaði hins vegar aðeins að ræða á almennum nótum um trúnað í nefndum. Mér finnst að nefndir og nefndastörf eigi að vera eins opin og gegnsæ og frekast er kostur og ég held að við ættum að nota okkur beinar útsendingar í meira mæli. Ég er t.d. alveg viss um að almenningi hefði þótt gaman að fá að hlusta á þennan fund. Það væri þá ágætt að reyna að opna störf nefndarinnar frekar og beinar hljóðútsendingar á netinu held ég að væru vel til þess fallnar eins og tíðkast víða í sveitarfélögunum.

Ástæða þess að ég er að tala um þetta nú er að það stendur til að breyta þingskapalögunum og í þeim drögum sem lögð hafa verið fram er kveðið á um að í lok hvers fundar verði tekin ákvörðun um hvort trúnaður eigi að ríkja um fundinn. Ég er alfarið á móti því. Mér finnst að meginreglan eigi að vera að allir fundir séu opnir. Ef beðið er um trúnað verður að meta það í hvert sinn og þingmenn verða að vita fyrir fram hvort trúnaður eigi að ríkja um þær upplýsingar sem þeir eiga von á. Þá verður bara hver og einn að svara já eða nei hvort hann vill veita slíkan trúnað. (BirgJ: Heyr, heyr.)