139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

trúnaður í nefndum -- rannsókn Evrópuþingsins á beitingu hryðjuverkalaga o.fl.

[14:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ef ég skil hv. þm. Siv Friðleifsdóttur rétt er vera okkar, 16 þingmanna Sjálfstæðisflokksins, á þingi nægileg til að breytingar á stjórnarskránni eigi ekki að koma hingað inn. (Gripið fram í.) Er það þannig sem við eigum að skilja — [Kliður í þingsal.] Er það þannig sem við eigum að skilja málið, hæstv. utanríkisráðherra? [Kliður í þingsal.] Ef hæstv. utanríkisráðherra vildi gæti hann komið í ræðustól Alþingis og greint frá öðrum þeim ágreiningsefnum sem komu í veg fyrir að stjórnarskrárnefnd 2007 kæmist að niðurstöðu og gæti skilað tillögum. (Gripið fram í: Hún komst að niðurstöðu.) Hún komst að niðurstöðu um ýmsa hluti, (Gripið fram í: Um auðlindamál? …) m.a. um auðlindir (Gripið fram í.) og hæstv. utanríkisráðherra gæti rakið þá sögu alla ef hann vildi. Ég óttast þá umræðu (Forseti hringir.) ekki.

(Forseti (ÁRJ): Ekki samtöl við ræðumann.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að þagga niður í hæstv. utanríkisráðherra [Hlátur í þingsal.] sem hefur greinilega mikla þörf fyrir að koma hingað upp.

Hins vegar er rétt að árétta að við erum á þjóðkjörinni samkomu. Við höfum stjórnarskrárbundna skyldu til að fjalla um stjórnarskrármálið. Þar sem það bar á góma hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að við sjálfstæðismenn værum að tala stjórnlagaþingið niður (Gripið fram í: Sem er rétt.) höfum við lítið gert annað en að benda á staðreyndir, t.d. á þá staðreynd hve mikill áhugi, eða lítill, hefði verið hjá almenningi í landinu á því að kjósa í þessari kosningu. (Gripið fram í: 80 þús.) (Gripið fram í: Hún var líka uppi í Hæstarétti.) Einn þriðji hluti kjósenda mætti á kjörstað, fordæmalaus kjörsókn. Þjóðin hafði bara ekki þann áhuga sem sumir í þessum sal og einhverjir í fjölmiðlunum hafa. Það kom skýrt í ljós. [Kliður í þingsal.]

Við höfum líka vakið athygli á kostnaði, við höfum vakið athygli á því dæmalausa klúðri í sambandi við frágang málsins sem varð til þess að Hæstiréttur (Forseti hringir.) taldi sig knúinn til að ógilda kosningu sem er líka einsdæmi (Forseti hringir.) þannig að þeir sem bera ábyrgð á þessu klúðri sem tengist stjórnlagaþinginu öllu ættu að fara gætilega í þessari umræðu [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.) og það stendur upp á þá, þessa áhugamenn um stjórnlagaþingið, að koma með einhverja lausn (Forseti hringir.) úr því öngstræti sem allt þetta mál (Forseti hringir.) er komið í vegna þeirra eigin vinnubragða.