139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[14:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í öllum meginatriðum hafa aðgerðir þessarar ríkisstjórnar á sviði skattamála verið vel heppnaðar og náð tilætluðum árangri. Það má segja að markmið breytinga sem við höfum ráðist í sé í aðalatriðum þríþætt, eða kannski fjórþætt. Það er í fyrsta lagi tekjuöflunarmarkmið, í öðru lagi að breyta álagningu skatta, breyta dreifingu skattbyrðinnar, í þriðja lagi að gera skattkerfið grænt, innleiða umhverfisskatta, og í fjórða lagi í allmörgum tilvikum að beita skattalegum ívilnunum til að stuðla að tilteknum markmiðum, fyrst og fremst að auknum umsvifum á ákveðnum sviðum.

Ef við lítum fyrst á tekjuöflunarmarkmiðin stóðum við frammi fyrir því að frumtekjur ríkisins, sem verið höfðu um 34–35% af vergri landsframleiðslu, hrundu niður í 27–28% með hruninu. Það sem við höfum fyrst og fremst gert á sviði tekjuöflunar að þessu leyti er að verjast frekara tekjufalli. Og við höldum núna sjó með frumtekjur á bilinu 27–28% af vergri landsframleiðslu. Það er nú allt og sumt. Við höfum stöðvað tekjufallið sem samdráttur í hagkerfinu og ýmis áföll leiddu yfir ríkið og við erum á u.þ.b. 5% lægra róli hvað varðar hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Þegar kemur að hinu, hvernig teknanna er aflað, höfum við vissulega gert umfangsmiklar breytingar. Við höfum fært skattkerfið aftur til baka til hins norræna módels. Við höfum hlíft og reyndar lækkað skatta á tekjulægsta fólkinu í landinu en við höfum lagt meiri byrðar á þá sem hæstar hafa tekjurnar, mestar hafa fjármagnstekjurnar og eiga mestar skuldlausar eignir. Álagningin sýnir að þessar aðgerðir hafa verið vel heppnaðar. Ég bendi mönnum á að kynna sér fréttabréf Þjóðmálastofnunar nr. 1 þar sem farið er rækilega yfir það hvernig dreifing skattbyrðinnar hefur þróast á undangengnum 12–14 árum. Þar kemur í ljós að álagningin á árinu 2010 vegna tekna ársins 2009, með þeim breytingum sem við gerðum á miðju ári, lækkaði skattbyrði lágtekjufólks, 10% tekjulægstu heimilanna, þannig að hún varð sú sama og árið 2000 og umtalsvert lægri en öll árin þar á milli.

Þegar skattbyrði hátekjufólks, 10% tekjuhæstu heimilanna, er hins vegar skoðuð hefur hún vissulega farið upp og er núna nákvæmlega sama hlutfall af tekjum og hún var 2005.

Ef við tökum ofurtekjuhópinn, þ.e. 1% allra tekjuhæsta fólksins, hefur skattbyrði hans vissulega þyngst umtalsvert, er núna 24,2% í formi beinna skatta af heildartekjum, nákvæmlega sú sama og hún var árin 2002–2003. Við höfum fært þessi hlutföll aftur til áranna áður en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hjóluðu í skattkerfið og flöttu það út (Gripið fram í.) og lækkuðu fyrst og fremst skatta af tekjuhæstu og ríkustu einstaklingunum á Íslandi. Þær breytingar hafa fullkomlega heppnast og skattkerfið núna er mun nær því að standast samjöfnuð við önnur norræn velferðarsamfélög. (BJJ: Allt …)

Varðandi umhverfisbreytingarnar höfum við stigið stór skref í því að gera íslenska skattkerfið grænt. Það var tími til kominn að taka á þeim málum. Við höfum innleitt vísi að orku- og auðlindagjöldum, við höfum innleitt kolefnisgjöld og við höfum breytt andlagi skattlagningar á umhverfi yfir í losun CO2.

Við höfum í fjórða lagi gert breytingar sem miða að því að örva atvinnustarfsemina og mæta t.d. atvinnuástandinu í formi endurgreiðslu virðisaukaskatts af endurbótum á íbúðarhúsnæði eins og hér var nefnt. Það er mjög vel heppnað átak. Við höfum innleitt skattaívilnanir fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki, við höfum innleitt tilteknar ívilnanir fyrir nýfjárfestingar og fleira mætti nefna.

Þegar kemur að tekjuöfluninni kemur í ljós, og við getum birt þær tölur innan skamms, að tekjuöflunaráætlun fjárlaga ársins 2010 gengur upp að fullu, og rúmlega það. Skatttekjur í heild eru 1% yfir áætlun þannig að allur hræðsluáróðurinn um að þessar breytingar okkar mundu koma í bakið á okkur og þýða minni tekjur mun afsannast, allur eins og hann leggur sig. Einnig að þessu leyti tókust tekjuöflunaraðgerðirnar mjög vel. Heildarskatttekjur eru t.d. 1% yfir áætlun, eignarskattar yfir, virðisaukaskattur yfir og tryggingagjaldið er meira að segja yfir tekjuáætlun sem menn töluðu ekki svo lítið um að væri að (Forseti hringir.) fara úr böndunum.

Varðandi framhaldið er í gangi, frú forseti, víðtæk skoðun á skattkerfinu í heild. Allir þingflokkar eiga aðild að því starfi og það mun núna á bak áramótunum fara á fulla ferð (Forseti hringir.) aftur.