139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[14:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Staða ríkissjóðs er og hefur verið slæm. Ég held að allir séu sammála því að það þurfi að laga þá stöðu þannig að við endum ekki með því að borga eintóma vexti og getum ekki veitt fjármagn í neitt annað. En það eru lausnirnar sem vekja spurningar.

Ríkisstjórnin fer þá einföldu leið að hækka tekjur með skattahækkunum og skera niður með niðurskurði og uppsögnum. Hún hefur engan skilning á því að eitthvert samhengi sé á milli skattstofna og skattprósenta en samt hefur það sýnt sig úti um allt. Hún sér ekki hvernig kakan hefur minnkað og minnkar enn. Hún sér ekki hvernig fjárfesting er komin niður í algjört lágmark, fjárfesting sem á að skapa atvinnu meðan á henni stendur, en á auk þess að skapa atvinnu til framtíðar. Hvað vantar þjóðina? Hana vantar fyrst og fremst atvinnu. Ekki er minnst á það. Það er algjört skilningsleysi á eðli skatta þegar hæstv. fjármálaráðherra talar um að þegar skatttekjur ríkissjóðs minnka sé það skattalækkun. Það er einmitt ekki raunin, því að skatttekjurnar geta lækkað þegar skattarnir eru hækkaðir um of. Það hefur sýnt sig í mörgum greinum.

Svo er sagt að þetta sé gott fyrir lágtekjufólkið. Það má vel vera að tekjuskattskerfið sé gott fyrir lágtekjufólkið en svo er allt hitt, grænu skattarnir, bensíngjöldin. Heldur hæstv. ráðherra því fram að lágtekjufólk þurfi ekki að keyra? Heldur hann að stórhækkun á óbeinum sköttum komi ekki niður á lágtekjufólki? Og heldur hann að brottflutningur fólks hafi ekki áhrif? Það er aðalauðlind þjóðarinnar til framtíðar. Vill ráðherrann horfa upp á það að hér verði algjör stöðnun? Ég óttast það því miður að við séum að stefna í varanlega stöðnun, íslensk þjóð, nema hér verði veruleg breyting á.