139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[14:56]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Við stöndum á tímamótum í dag. Tvö ár eru liðin frá því að Vinstri græn og Samfylking mynduðu fyrri ríkisstjórnina sem fékk endurnýjað og öflugt umboð í kosningum tæpum þremur mánuðum síðar. Ég fullyrði að á þessum tímamótum erum við nákvæmlega í færum til þess að snúa vörn í sókn. Það eru öll teikn á lofti um að okkur sé að takast og jafnvel að okkur hafi tekist að taka fyrstu skrefin upp frá botni efnahagshrunsins og að fram undan blasi við uppbygging íslensks samfélags á grunni félagslegs réttlætis, á grunni grænna gilda og grunni kvenfrelsis. (Gripið fram í.)

Skattstefna ríkisstjórnarinnar hefur gegnt lykilhlutverki í vörninni og hún mun gegna engu minna hlutverki í sókn til betra samfélags. (Gripið fram í.) Skattkerfisbreytingarnar hafa einkum miðað að því að auka tekjur ríkissjóðs, sem ekki veitti af eftir hrunið, og draga úr skattbyrði á lægstu tekjur. Bæði þessi markmið hafa náðst og fyrir vikið hefur dregið úr niðurskurðarkröfunni eins og hér hefur verið bent á. Tekjustofnar ríkisins hafa verið treystir, skattbyrðinni hefur verið breytt með þrepaskiptu skattkerfi sem hlífir þeim lægst launuðu, fjármagnstekjuskattur hefur verið hækkaður í 20% og sett á hann lágt frítekjumark. Lagður hefur verið sérstakur auðlegðarskattur á 3.500 auðugustu Íslendingana og hann nemur nú 5 milljörðum kr. Frú forseti. Það er meira en öll útgjöld til sjúkrahússins á Akureyri eða til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins svo dæmi sé tekið. Hér hafa verið nefnd dæmi um græna skatta. Allt þetta sem ég hef nefnt og áður hefur komið fram er í samræmi við stefnu Vinstri grænna í skattamálum, stefnu sem er nátengd kröfu okkar um félagslegt réttlæti og umhverfisvernd.

Frú forseti. Áfram nú í sóknina.