139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[15:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er ýmislegt við mig að athuga einu sinni sem oftar en ég skal láta hjá líða að ræða það mikið og gera það frekar síðar.

Það er rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson benti á áðan, ég misreiknaði mig þegar ég taldi að þrjár ræður mundu nægja til að fara yfir skattahækkanir ríkisstjórnarinnar og þær flækjur sem hún hefur innleitt í skattkerfinu. Ég verð, frú forseti, að skrifa nokkrar greinar eða blogga og vona að frú forseti geri ekki athugasemdir við það.

Hins vegar höfum við fengið að fylgjast með mjög undarlegri tilraun málsvara ríkisstjórnarinnar til að halda fram hinum ýmsu þversögnum, þar með talið því að skattar hafi í rauninni ekkert hækkað, a.m.k. ekki miðað við það sem þeir hafa verið áður. Þeir vísa þá mjög oft til stofnunar sem nefnd er Þjóðmálastofnun en geta þess þó ekki á hvers vegum sú stofnun er. Ég held að það megi alveg koma fram að þar er á ferðinni Stefán Ólafsson sem hefur sett fram ýmsar nýstárlegar kenningar sem sýna iðulega að Samfylkingin lækkar skatta þótt hún hækki þá og að aðrir flokkar hækki þá þótt þeir lækki þá.

Jafnframt höfum við fengið að heyra um mikilvægi þess að hækka skatta til að standa undir ýmsum kostnaði. En þá líta menn fram hjá þeim meginpunkti að sagan sýnir að það er ekki hægt að hækka skatta endalaust og gera ráð fyrir því að tekjurnar hækki til samræmis við það. Jafnframt er litið fram hjá þeirri grundvallarreglu sem allir sem eru einhvers staðar á miðjunni aðhyllast nú orðið, a.m.k. þeir sem eru hvorki of langt til vinstri né hægri í efnahagsmálum, að á þensluskeiði eigi ríkið að draga saman og hugsanlega að hækka skatta eins og stjórnarflokkarnir hafa verið duglegir að benda á en hin hliðin á þeim sama peningi er að í samdrætti hækka menn ekki skatta, þá væntanlega lækka menn skatta. (Forseti hringir.)

Hér var nefnt hið norræna skattkerfi og það hefur vakið mikla athygli hversu margir Íslendingar hafa flutt til Noregs, þar með talið (Forseti hringir.) þar í landi. Mér skilst að það sé komið í hámæli í norska þinginu að nú hafi loksins orðið viðsnúningur (Forseti hringir.) á þeirri þróun sem hófst á 9. öld þegar Íslendingar flúðu Noreg vegna skattpíningar. (Forseti hringir.) Þeir hafa nú snúið aftur til Noregs (Forseti hringir.) vegna þess að dæmið hafi snúist við. (Gripið fram í: Jafnvel í Noregi.) [Kliður í þingsal.]