139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Landeyjahöfn og siglingar Herjólfs.

[15:20]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda tímabærar vangaveltur um Landeyjahöfn. Á fyrstu sex vikum Landeyjahafnar fóru 70 þús. farþegar milli lands og Eyja miðað við 120 þús. á hverju ári þar á undan. Þetta segir alla söguna. Skandia kemur um helgina eins og hæstv. ráðherra nefndi. Það er öflugt dæluskip og getur unnið í álitlegri ölduhæð. Þess er að vænta að það muni fljótt skila árangri. Gallinn er sá að Landeyjahöfn er ekki fullbúin, því hún er hönnuð fyrir skip sem ristir grynnra og á að taka minna vindfang en núverandi skip. Höfnin er hönnuð sem pylsubrauð en verið er að troða í hana hrossabjúga, það gengur ekki til lengdar.

Það skiptir miklu máli að ráðherra skipi stýrihóp hið fyrsta til að sinna þessu verkefni. Ég veit ekki til þess að búið sé að skipa stýrihóp. Það hefur allt verið í lausu lofti. Hann vitnar í fyrri stýrihóp um nýja ferju fyrir Landeyjahöfn. Þetta þarf að ganga í, vegna þess að tíminn þarf að vinna með okkur.

Hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra, Kristján Möller, lýsti því yfir í þingsal síðastliðið vor að það væri tímabært í lok þessa árs að taka afstöðu til þess hvernig skip hentaði aðstæðum hafnarinnar. Það þarf að sýna þolinmæði og sjá hvernig höfnin leggst, hvernig hún mótast og hvernig náttúran gengur að henni. Það skiptir miklu máli að vinna hratt og ákveðið að því að koma vinnu við undirbúning nýs skips á koppinn (Forseti hringir.) þó að ekki sé hægt að slá í gadda nákvæma dagsetningu hvenær það verður boðið út. Það skiptir miklu máli að þetta verði gert og það verður að vinna faglega að þessu.