139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Landeyjahöfn og siglingar Herjólfs.

[15:22]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka málefnalega og yfirvegaða umræðu um stöðu Landeyjahafnar. Höfnin markaði samgöngubyltingu á sínum tíma milli lands og Vestmannaeyja og færði Vestmannaeyjar inn að byggðakjarna Miðsuðurlands ef svo má segja. Það voru eftirminnileg tímamót þegar höfnin var tekin í notkun í fyrrasumar. Hún sannaði strax gildi sitt og markaði straumhvörf í samgöngum á milli lands og Eyja á fyrstu fjórum, fimm vikunum þegar tugþúsundir fóru þarna á milli. Það var vitað frá upphafi að dýpka þyrfti fyrstu árin. Hafnirnar, bæði í Vestmannaeyjum og Hornafirði, voru dýpkaðar fyrstu 50 til 60 árin eftir að þær voru teknar í notkun. Suðurströndin er einfaldlega þannig að þar þarf stanslaust að dýpka. Enginn reiknaði með því að dýpka þyrfti svona mikið. Í fyrsta lagi streymdu milljón rúmmetrar af gosefnum fram eftir gos í Eyjafjallajökli sem komu utan þess sem reiknað var með. Svo, eins og fram hefur komið, var höfnin hönnuð fyrir minna skip.

Það er mikilvægt, eins og fram kom áðan, að ráðast strax í undirbúning að byggingu nýs Herjólfs. Hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra lýsti því yfir við vígslu hafnarinnar í fyrrasumar að stýrihópur um nýjan Herjólf yrði skipaður og var hv. þm. Róbert Marshall nefndur sem formaður hópsins. Það væri fróðlegt að fá svör við því, hæstv. ráðherra, hver staðan er á skipan stýrihóps um nýjan Herjólf. Við vitum að það skiptir meginmáli. Frátafirnar eru meiri en reiknað var með. Það er út af því að skipið ristir dýpra, út af eldgosi og auknum framburði gosefna. Við megum alls ekki hvika frá fyrri áætlunum um að halda höfninni opinni. Hún markaði tímamót í samgöngusögunni milli lands og Eyja og mun örugglega og án nokkurs vafa gagnast um áratugaskeið sem samgönguæð (Forseti hringir.) þarna á milli. En við þurfum að fá nýtt skip. Þess vegna skiptir miklu máli að hefja formlegan undirbúning að smíði þess.