139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Landeyjahöfn og siglingar Herjólfs.

[15:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Við gerum okkur öll ágætlega grein fyrir því hve geysileg samgöngubót Landeyjahöfnin hefur verið. Ég ætla samt að nefna tvær dæmisögur.

Í ágúst í fyrra keyrði ég eftir Sæbrautinni og heyrði auglýsingu um að Íslendingar ættu að drífa sig til Eyja og fá sér ís. Þetta var í fyrsta skipti sem ég heyrði auglýst að fólk gæti skroppið til Eyja og fengið sér ís. Síðan í desember tóku kaupmenn og Vestmannaeyjabær sig saman og buðu fólki frítt í Herjólf til að koma og versla. Það voru um 300–400 manns sem nýttu sér þetta einn laugardag. Í janúar hins vegar, þar sem ekki hefur verið siglt í Landeyjahöfn í nokkrar vikur, hafa menn verið að grínast með að Herjólfur bjóði upp á ókeypis nuddmeðferð þar sem farþegum er kastað í kojum fram og til baka, upp og niður og þetta geti örugglega hjálpað einhverjum með bakverkina, þó það sé ekki jafngott fyrir magann.

Við sjáum hvers konar breyting Landeyjahöfnin er og ekki bara fyrir Vestmannaeyjar heldur Suðurlandið allt, þar sem bændur hafa t.d. sótt sér steypu til Vestmannaeyja og um leið nýtt sér tækifærið og verslað annað. Ég fullyrði að í fyrsta skipti í sögu Vestmannaeyja eiga Vestmannaeyingar sér loksins nágranna. Það skiptir geysilega miklu máli að við tryggjum að við getum haldið Landeyjahöfninni opinni. Ég er þegar búin að leggja fram skriflega fyrirspurn. Ég lagði fram munnlega fyrirspurn í óundirbúnum fyrirspurnatíma til ráðherra um það sem hann teldi að þyrfti að gera til að tryggja að hægt væri að halda höfninni opinni.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson fór í gegnum nokkrar spurningar varðandi ferjuna. Ég tel mikilvægt að skipaður verði annar stýrihópur eins og hv. þm. Árni Johnsen benti á (Forseti hringir.) og tekin ákvörðun um byggingu nýrrar hafnar. Um leið verði líka teknar ákvarðanir og unnið að því að tryggja (Forseti hringir.) að hægt verði að halda höfninni opinni.