139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Landeyjahöfn og siglingar Herjólfs.

[15:27]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Landeyjahöfnin, byggingarnar þar og allt umhverfið eru glæsileg mannvirki sem hefur þegar sannað gildi sitt. Auðvitað komu fram óhjákvæmilegir byrjunarörðugleikar, það er eðlilegt og ekki bætti gosið úr skák. Málið snýst um að mæta þessum byrjunarörðugleikum eins og langflestir hafa gert með jákvæðum hætti, heiðarlega og lausnarmiðað.

Áhöfn Herjólfs hefur líka verið að læra á þessar erfiðu aðstæður og staðið sig frábærlega. Ég varð vitni að því í slæmu veðri fyrir þremur vikum þar sem ég dáðist að fumlausri stjórn skipsins og skipulagi. Ég hrósa þeim fyrir það.

Það er von á nýju skipi í næstu viku, þá verða miklar breytingar. Sandburður hefur auk þess minnkað og þess er skammt að bíða að höfnin muni gegna hlutverkinu sem henni var ætlað. Það er ekki spurning hvort, heldur hvenær.

Ég vek athygli á, af því að hv. þm. Árni Johnsen sagði að ekki væri öllu lokið, að kostnaður mun vera 90% af áætlun í dag. Ég verð að segja að hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, hefur staðið sig afar vel í þessu verkefni. Það sem best er gert í því er að hann hefur unnið náið í samstarfi við heimamenn. Ég hef frá fyrstu hendi að þeir eru ánægðir.

Það er eitt sem ég vildi nefna sem ekki hefur komið fram í umræðunni, það er landgræðslan á svæðinu. Það er þrekvirki. Það þarf að gera miklu betur. Ég hrósa sandgræðslunni. Ég skoðaði þetta svæði. Það er ótrúlegt að sjá hvað vel hefur tekist í landgræðslunni, (Gripið fram í.) það þarf að bæta þar í. Ég minni á að þegar Þorlákshöfn var opnuð átti höfnin við sömu fokvandamál að glíma.

Ég verð að taka undir orð hv. þm. Árna Johnsens um nauðsyn þess að stofna rýnihóp sem metur daglega eða mánaðarlega reynsluna af höfninni og leggur grunn að kaupum eða nýsmíði skips. Það er framtíðarverkefnið. (Forseti hringir.)