139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Landeyjahöfn og siglingar Herjólfs.

[15:29]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Samgöngur eru lífæð landsbyggðarinnar. Stjórnvöld hafa brugðist við uppbyggingu á atvinnusköpun á landsbyggðinni eftir þá miklu hagræðingu sem varð í sjávarútvegi með tilheyrandi afleiðingum. Við verðum því að horfa sérstaklega til landsbyggðar í atvinnuuppbyggingu í framtíðinni og grundvöllur þess eru bættar samgöngur.

Vestmannaeyjar eru ein af grunnstoðum íslensks sjávarútvegs. Þar eru öflug og stór fyrirtæki og byggð sem hefur mátt þola mikið. Skemmst er að minnast eldgosanna 1973. Eyjarnar byggja öflugt og vinnusamt fólk. Bættar samgöngur eru forsenda þess að við náum að byggja þar upp blómlega byggð, ekki halda í horfinu heldur efla byggðina. Þetta á við um landið allt. Góð tenging við nágrannasveitarfélög er mikilvæg. Það kom fram áðan að með Landeyjahöfn hafi Vestmannaeyingar eignast nágranna. Þetta stækkar atvinnusvæði og menntunartækifærum fjölgar á svæðinu.

Það voru miklar vonir bundnar við Landeyjahöfn þegar hún var opnuð í fyrra. Ófyrirséðar náttúruhamfarir hafa m.a. skapað mikla óvissu. Slík óvissa er algerlega óþolandi fyrir íbúa Eyjanna og þá sem Eyjarnar þurfa að sækja. Við þessu verður að bregðast. Þrátt fyrir tímabundinn kostnað verður að grípa til nauðsynlegra aðgerða til þess að mál geti komist í samt lag.

Það þarf að fara í öflugar framkvæmdir í samgöngumálum almennt. Við höfum rætt það. Eitt af því er að byggja nýja ferju fyrir Vestmannaeyjar og bregðast við í Landeyjahöfn. Hæstv. ráðherra hefur sagt að ekki komi til greina að fara í þessar samgönguframkvæmdir nema sérstök gjaldtaka komi til. Ríkisstjórn sem talar með slíkum hætti var tilbúin að skuldsetja (Forseti hringir.) ríkissjóð fyrir á fimmta hundrað milljarða á síðasta ári. Örfáir milljarðar í samgöngubætur og mikilvægar framkvæmdir (Forseti hringir.) sem eru á borðinu eru smámunir. Þessi málflutningur þeirra stenst enga skoðun.