139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Landeyjahöfn og siglingar Herjólfs.

[15:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmönnum málefnalega umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin, ekki síst vegna þess að umræðunni var með nokkuð stuttum fyrirvara smellt á, við getum því ítrekað spurningar sem við fengum ekki svör við hér í dag og komið til ráðherra. Ég heyri sem betur fer að mikil samstaða er meðal þingmannahópsins sem um þetta hefur fjallað hvað þarf að gera sem næstu skref. Allir hv. þingmenn hafa fjallað um það að mikil þörf er á að vita hvort stýrihópur sé til og hver leiði hann og hvar sú vinna sé stödd. Ef hann er ekki til þá sé jafnvel ástæða til að setja á sérstakan rýnihóp eða stýrihóp til að fylgjast með því hvernig höfnin er að þróast. Það er staðreynd að hafnir, þess konar framkvæmdir sem gerðar eru á sandströndu, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim, þarf að þróa með þeirri þekkingu sem menn öðlast við að nýta þær. Það var vissulega djörf ákvörðun að fara í þessa framkvæmd og hún er glæsilegt mannvirki og gott vitni um bæði þá verkþekkingu sem er til í landinu hjá verktökum og sérfræðingum Siglingastofnunar og mikilvægt að nýta þetta líka í samráði við heimamenn til að læra hvernig best er á málum haldið, ekki síst við að hefta fok og annað í þeim dúr.

Ég vil ítreka við hæstv. ráðherra að þær spurningar sem mér fannst við fá kannski minnst svör við eru um framtíðina og hvort aðilar eru þarna að störfum sem muni fylgja þessu stíft eftir. Þó að áætlun sé um að nýtt skip komi 2013 eða 2014 eru engir fjármunir til. Við þurfum því að búa við einhverja aðra tilskipun (Forseti hringir.) þangað til og þá er spurningin með hvaða hætti við ætlum að gera það. (Forseti hringir.) Ætlum við að hafa þær áætlanir sem við höfum haft í vetur, dálítið tilfallandi, eða ætlum við (Forseti hringir.) að vita með meiri fyrirvara hvert skipið siglir á hverjum degi?