139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

385. mál
[15:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót samgöngustofnun undir heitinu Farsýslan sem sinni stjórnsýslu og eftirliti á sviði samgöngumála. Stofnun hennar er hluti af heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnana sem felur í sér að settar verði á fót tvær stofnanir, annars vegar Farsýslustofnun og hins vegar framkvæmdastofnun undir heitinu Vegagerðin, sem sinnir framkvæmdum á sviði samgöngumála.

Stofnanirnar verða reistar á grunni núverandi samgöngustofnana, þ.e. Siglingastofnunar Íslands, Flugmálastjórnar Íslands, Umferðarstofu og Vegagerðarinnar. Samhliða þessu frumvarpi er flutt frumvarp um Vegagerðina.

Endurskipulagning samgöngustofnana á sér nokkurn aðdraganda sem ég tel rétt að reifa stuttlega í byrjun. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá því í júní 2008, „Samgönguframkvæmdir. Stjórnsýsluúttekt“, voru settar fram tillögur um breytt stofnanakerfi samgöngumála þar sem lagt var til að settar yrðu á fót tvær stofnanir, þ.e. stjórnsýslustofnun og framkvæmdastofnun ásamt ríkisfyrirtæki á sviði rekstrar- og viðhalds.

Í janúar 2009 var skipuð nefnd um framtíðarskipan stofnana samgöngumála. Nefndin skilaði skýrslu sinni „Framtíðarskipan stofnana samgöngumála. Greining og valkostir“ í lok júní 2009. Þar voru kynntir fimm valkostir um stofnanaskipan, auk tillagna og ábendinga um meiri samhæfingu í samgöngumálum, t.d. um að bæta verklag við undirbúning samgönguáætlunar og efla stefnumótunarhlutverk ráðuneytisins.

Að vel athuguðu máli og með hliðsjón af tillögum Ríkisendurskoðunar var ákveðið að hefja undirbúning að myndun tveggja stofnana í samræmi við einn valkosta nefndarinnar.

Skipaður var stýrihópur til að vinna nákvæma greiningu á kostum endurskipulagningarinnar og leggja fram tillögur um breytta stofnanaskipan samgöngumála.

Í starfi stýrihópsins var lögð áhersla á samstarf og samráð við stofnanir og að halda vel á starfsmannaþætti breytinganna.

Á vegum stýrihópsins hafa starfað sjö vinnuhópar skipaðir starfsmönnum stofnananna og ráðuneytisins sem unnu að greiningu og útfærslu einstakra þátta. Stýrihópurinn mun áfram vinna að undirbúningi sameiningar. Stefnt er að því að sameina sem fyrst höfuðstöðvar hvorrar stofnunar fyrir sig í húsnæði, enda er slíkt forsenda þess að áform um hagræðingu nái fram að ganga.

Með sameiginlegri samgönguáætlun allra samgöngugreina var mótuð ný framtíðarsýn þar sem litið er á samgöngugreinarnar sem eina heild með sameiginleg markmið. Þar er mörkuð stefna um sameiginlega áætlanagerð og stefnumótun fyrir allar greinar samgangna, samræmda forgangsröðun, hagkvæmari notkun fjármagns og mannafla. Þar er jafnframt horft til þriggja meginviðfangsefna. Í fyrsta lagi samgöngukerfisins, í öðru lagi stjórnsýslu og eftirlits og í þriðja lagi starfsemi sem nýtir samgöngukerfið. Samgönguáætlun hefur náð fram að ganga en samgöngustofnanirnar og skipulag þeirra endurspegla enn fyrra umhverfi. Mikilvægt er að samgöngustofnanir þjóni nýjum markmiðum og nýrri hugsun.

Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að gera þurfi umtalsverðar umbætur og breytingar á stjórnkerfinu til að nýta takmarkaða fjármuni eins vel og unnt er en jafnframt með það að markmiði að stjórnsýsla og þjónusta hins opinbera við almenning og atvinnulíf verði eins góð og kostur er. Verulegum hluta af lækkun ríkisútgjalda á næsta ári verður að ná með aukinni hagræðingu í rekstri ríkisins, svo sem með endurskipulagningu stofnanakerfisins og opinberrar þjónustu.

Endurskipulagning samgöngustofnana getur bæði falið í sér faglegan ávinning og rekstrarhagræðingu. Faglegur ávinningur liggur einkum í bættum möguleikum stofnana til að sinna hlutverki sínu í samfélaginu og bregðast við breyttum kröfum til starfsemi þeirra. Aðgreining stjórnsýslu frá framkvæmdum og rekstri mætir innlendum og erlendum kröfum um faglega og hlutlausa stjórnsýslu og tryggir að sambærilegar kröfur séu gerðar til framkvæmda og rekstrar mannvirkja og annarra þátta samgöngumála. Aukin samþætting þvert á samgöngugreinar endurspeglar heildstæða samgönguáætlun og leggur áherslu á hagkvæmni og virkni samgöngukerfisins fremur en þær leiðir sem bundnar eru einstökum samgöngugreinum. Sérhæfing stofnana gefur færi á að efla vinnubrögð, fagmennsku og árangur t.d. á sviði stjórnsýslu og framkvæmda.

Við mat á hagræðingu verður að taka tillit til þess að oft felur sameining eða endurskipulagning stofnana í sér kostnað, til dæmis vegna sameiningar húsnæðis, flutninga, samræmingar tækjakosts, þjálfunar starfsfólks, starfsloka og ráðgjafar. Líta má á þennan kostnað sem fjárfestingarkostnað til að ná fram hagræðingu. Hafa verður í huga að þegar lagt er í kostnað vegna sameiningar er það ávallt gert með hliðsjón af væntanlegum ávinningi. Við erfiða fjárhagsstöðu verður oft að dreifa þessum kostnaði á lengri tíma en ella. Til lengri tíma getur ónóg fjárfesting í upphafi dregið úr hagkvæmni endurskipulagningar. Einnig tekur nokkurn tíma að fá nýjar stofnanir til að virka sem eina heild. Því má vænta þess að bein hagræðing skili sér ekki að fullu fyrr en á öðru og þriðja ári frá sameiningu.

Þegar meta á hagræði samfélagsins af einfaldara stofnanakerfi er ekki nægilegt að líta eingöngu til beinnar hagræðingar vegna rekstrarlegrar samlegðar, þ.e. vegna fækkunar stjórnenda, endurskipulagningar ýmiss konar stoðþjónustu, samþættingar verkferla, hagkvæmari innkaupa, minni húsnæðiskostnaðar o.s.frv. Þegar vel tekst til getur þekking sem í dag skiptist milli margra stofnana skapað margvísleg tækifæri þegar hún er sameinuð hjá einni stofnun. Fækkun stofnana getur ein og sér skilað hagræði vegna einföldunar á stjórnsýslu, bættrar samhæfingar og markvissari þjónustu við notendur. Loks er ótalið að öflugri stofnanir geta haft jákvæð áhrif á efnahagslífið. Nægir að nefna í þessu sambandi að jafnvel mjög litlar breytingar á virkni samgöngukerfisins geta skilað umtalsverðum þjóðhagslegum ávinningi.

Á þessa þætti leyfi ég mér að einblína þegar um sameiningu eða endurskipulagningu á stjórnsýslunni er að ræða og eitt má aldrei vanmeta sem er mikilvægi þess að hugsa hlutina upp á nýtt. Oft held ég að menn ofmeti fjárhagslegan ávinning af sameiningu stofnana. Ég held að horfa eigi ekki síður til hins að starfsemin getur orðið markvissari eftir að starfsemin er stokkuð upp og menn leggja sig í líma við að hugsa hlutina upp á nýtt.

Hæstv. forseti. Ég mun nú stuttlega gera nánari grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins.

Í fyrsta lagi eru í 3. gr. felld niður ákvæði gildandi laga um hafnaráð, siglingaráð og flugráð. Í stað hinna lögbundnu ráða er lagt til að ráðherra skipi fagráð eins og þörf krefur hverju sinni auk hins almenna samráðs stofnunarinnar við aðrar stofnanir, hagsmunaaðila og almenning um þau verkefni sem stofnuninni eru falin.

Í öðru lagi er í 4. gr. það nýmæli að fela stofnuninni að setja reglur um gerð og búnað ökutækja, skipa og loftfara og um hæfi stjórnenda þeirra og annast eftirlit með framkvæmd þeirra ásamt því að setja öryggiskröfur til samgöngumannvirkja og kveða á um skipulag umferðar og leiðsögukerfa í lofti, á láði og legi.

Í þriðja lagi er í 5. gr. Farsýslunni falið eftirlit með framfylgd krafna um annars vegar öryggi samgöngumannvirkja og hins vegar öryggisstjórnun við rekstur þeirra. Þá er lagt til að stofnunin annist úttekt á öryggisatriðum samgöngumannvirkja sem framkvæmdastofnun á sviði samgöngumála hefur byggt.

Í fjórða lagi er það að nefna að þau verkefni sem stofnuninni er falið að sinna og upp eru talin í 7.–11. gr. eru sömu verkefni og þær stofnanir sem felldar verða undir Farsýsluna sinna í dag.

Í fimmta lagi er í III. kafla laganna fjallað um gjaldtökuheimildir stofnunarinnar og möguleika hennar til að afla sér tekna. Ekki eru gerðar stórvægilegar breytingar á gjaldtökuheimildum stofnunarinnar frá því sem í dag gildir um þær stofnanir sem felldar eru undir Farsýsluna. Hvað það snertir vil ég leiðrétta misskilning sem fram hefur komið í fjölmiðlum í dag, a.m.k. einum vefmiðli, þar sem rætt er um að verið sé að lauma gjaldskrárhækkunum inn í nýtt frumvarp. Þetta er mikill misskilningur. Hér er um að ræða tvenns konar gjöld. Annars vegar umferðaröryggisgjald sem sett var á árið 2006 og var þá 400 kr. en hefur hækkað samkvæmt verðlagsbreytingum upp í 490 kr. á þessu ári. Hins vegar er um að ræða gjald fyrir útgáfu lofthæfisskírteina sem hefur ekki færst í krónum talið í samræmi við verðlagsþróun enda bundið inn í lögin. Hins vegar er eftirlitsgjald með þessum lofthæfisskírteinum. Það hefur tekið verðlagsbreytingum og það eina sem um er að ræða, eina breytingin sem um er að ræða með þessu frumvarpi er að færa gjaldið fyrir útgáfu lofthæfisskírteina í samræmi við verðlagsþróun sem orðið hefur. Það er því ekki er um að ræða að verið sé að innleiða nein gjöld með þessu frumvarpi, það er mikill misskilningur.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri og legg til að frumvarpið verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar Alþingis.