139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

385. mál
[16:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil benda á að á vissum stigum stjórnsýslunnar í efstu lögum hennar segir sig sjálft að hægt er að ná þeirri hagræðingu sem hv. þingmaður vísar til, höfðunum fækkar, ef svo má að orði komast, í yfirstjórninni, fjármálastjórum, forstjórum og öðrum þeim sem hafa með yfirstjórnina að gera. Hins vegar erum við að tala um mun lægra hlutfall þegar litið er til stjórnsýslunnar almennt, þar erum við að tala um 10–15%, allt annað hlutfall.

Hvers vegna var þetta ekki gert áður? Það er nú svo að þessar stofnanir þurfa að sjálfsögðu á sínum stjórnunarstrúktúr að halda, þær þurfa á sinni stjórnsýslu að halda, forstöðumönnum, fjármálastjórum, rekstrarstjórum og þar fram eftir götunum. Það er ekki fyrr en með sameiningunni að þessar breytingar geta átt sér stað. Það er þetta sem við horfum til, ekki aðeins á þessu sviði heldur öðrum sviðum einnig, að reyna að komast hjá því að draga úr framlögum til starfseminnar sjálfrar ef við getum fundið leiðir til að hagræða í stjórnunarkostnaði. Út á það gengur þetta m.a. þótt meginmarkmiðið sé að ná fram faglega öflugri starfsemi.