139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

385. mál
[16:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. ráðherra um að hann teldi Vegagerðina vel rekna, ég deili ekki um það við hæstv. ráðherra. Ég er ekki að setja út á það hvernig Vegagerðin er rekin, ég hef engar athugasemdir við það, og ekki heldur Siglingastofnun og þær stofnanir sem hér er um að ræða. Ég er hins vegar að benda á að þegar menn taka ákvarðanir eins og hér er gert er reyndin sú, því miður, að það er skorið miklu minna niður í efstu lögunum. Það er staðreynd málsins, því miður. Þetta þurfum við að bæta. Það hefur ekkert með einstaklinga að gera eða þá sem reka þessar stofnanir. Þetta er fínt fólk, ég hef góða reynslu af því, ég er ekki að setja út á það, ekki má skilja orð mín þannig svo það fari ekki á milli mála.

Við verðum hins vegar að setja hlutina í stóra samhengið af því að við eigum líka eftir hugsanlega að draga frekar úr ríkisútgjöldum, ég held að það liggi fyrir þó að varla sé hægt að skattpína þjóðina meira, og meira að segja þegar vinstri menn eru farnir að tala um að komið sé að þolmörkum er það nú vísbending um að komið sé yfir þolmörkin. Það þarf að hagræða og ef við náum ekki hagvextinum í gang, sem því miður bendir ekki til að verði með þeim hætti sem þarf, þá eigum við eftir að skera niður. Hæstv. ráðherra sagði líka að starfsmennirnir væru að vinna góð störf og mikilvæg, ég geri ekki lítið úr því, en ég er hins vegar að draga það inn í samhengið, stóra samhengið sem er það að við erum líka að reka fólk út af spítölunum og segja því upp. Við þurfum bara, eins og hæstv. ráðherra hefur oft haldið fram og ég er alveg sammála honum, að ræða hlutina efnislega.

Ég er hins vegar ekkert að mynda mér neina skoðun, ég sit í hv. samgöngunefnd og ég fjalla bara um málið þar, ég ætla ekki að segja að þetta sé ekki hið besta mál eða neitt þar fram eftir götunum, en mér finnst hins vegar mjög mikilvægt að menn átti sig á tilgangi þess sem á að fara í. Þegar ég fer yfir þetta efnislega — ég náði ekki að spyrja að því í andsvari við hæstv. ráðherra áðan hvernig þetta hefði verið unnið, ég þekki ekki feril málsins og hvernig þetta hefur verið unnið í samvinnu við stofnanirnar og þá sem vinna þar, það getur vel verið að það hafi allt verið unnið eðlilega og gert með þeim hætti sem á að gera — þá koma vangaveltur upp í hugann þegar maður les þetta svona hrátt í fyrsta sinn án þess að hafa fengið kynningu á efninu í hv. samgöngunefnd.

Ég ætla ekki að gera neitt stórmál úr því en ég man að þegar við ræddum hér annað mál fyrir áramót var einmitt talað um að æskilegt væri að ráðuneytið, innanríkisráðuneytið, kynnti mál fyrir hv. samgöngunefnd áður en þau væru lögð fram, af því að eðlilega vakna oft margar spurningar. Það er kannski ekki stóra málið en af því að þetta er á dagskrá fundarins á morgun hefði verið æskilegra að slík kynning af hálfu ráðuneytisins hefði farið fram sem hefði ugglaust getað sparað mikinn tíma og svarað fleiri spurningum en við gerum í þessari umræðu.

Það kemur fram í frumvarpinu að reiknað er með 170 millj. kr. hagræðingu sem verði til við sameiningu þessara tveggja stofnana. Það er samt ekki búið að skipta því á milli stofnana þannig að það er dálítið á reiki. Ég held að við hæstv. ráðherra séum sammála um að menn þurfi og eigi að læra af reynslunni og skoða málin betur áður en lagt er af stað og reynslan segir okkur það líka. Gerð hefur verið skýrsla og úttekt af hálfu Ríkisendurskoðunar þar sem fram kemur að mjög sjaldan, ég held að það sé í 15% tilfella, ég held að ég muni töluna rétt, þar sem markmið sameiningar nást, þau markmið sem sett eru fram þegar farið er í sameiningu á stofnunum.

Síðast en ekki síst, af því að hæstv. ráðherra kom inn á það í ræðu sinni að á netmiðli hefði verið talað um að hann væri að lauma inn nýjum gjaldtökum, þá er það alveg á tæru og það er nú eitt til viðbótar í skattahækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar — það er alveg sama hvað það er, það verður að hækka allt — að það er alveg klárlega gert ráð fyrir heimildum hér til að hækka gjöld. Svo geta menn fært rök fyrir því að þau hafi ekki verið hækkuð síðan 2006 eða 2007 og þetta sé verðlagsbreyting. En eigi að síður er það hinn blákaldi veruleiki að í þessu frumvarpi er heimild til að hækka þau gjöld sem hæstv. ráðherra nefndi áðan. Það liggur alveg fyrir hvort heldur það er eftirlit með skoðun á ökutækjum, starfsleyfi skoðunarstöðva eða umferðaröryggisgjaldið sem hér er lagt til líka eða útgáfa lofthæfisskírteina. Og við vitum vel hvert þessi gjöld fara, þau fara að sjálfsögðu út í verðlagið hjá viðkomandi stofnunum. Það liggur alveg ljóst fyrir, það þarf ekki að deila mikið um það. Það liggur fyrir að það á að fara að hækka gjöldin og auka tekjur ríkissjóðs sem því nemur, enda er heildarniðurstaðan sú að það á að hækka gjöld um 37 millj. og spara um 170 sem eru þá 207 millj.

Ég er síðan líka með ákveðnar spurningar þar sem hér kemur fram ákveðin þversögn eða alla vega eitthvað sem menn þurfa að hugsa. Það kemur fram í frumvarpinu að það sé ákveðinn stofnkostnaður við að sameina stofnanir, og það skiljum við öll, sem felist í því að gera þurfi ákveðna hluti og það er rakið í frumvarpinu, ég sé enga ástæðu til að fara yfir það sérstaklega, en síðan segir líka að hagræðingin muni skila sér — þetta sé svona stofnkostnaður fyrir framtíðina — eftir tvö til þrjú ár. Samt koma fullyrðingar um 170 millj. kr. hagræðingu, sem er ekki nógu vel útfært að mínu mati, og til viðbótar er sagt að áætlunin sé sú að í þessari nýju stofnun þar sem 468 manns eiga að vinna muni árlega láta af störfum 14 manns vegna aldurs og sagt er að það þurfi hugsanlega ekki að ráða í öll störf sem losna.

Ég er dálítið hugsi yfir því miðað við það sem stendur á undan í frumvarpinu, að menn geri sér grein fyrir því þegar farið er af stað með nýtt verkefni að það taki ákveðinn tíma að ná fram hagræðingu, en samt kemur þessi fullyrðing hér og ekki nógu vel rökstudd. Ég ætlast hins vegar ekki til þess að hæstv. ráðherra svari því hér efnislega. Ég veit að við munum að sjálfsögðu fara vel yfir þetta mál í samgöngunefnd til þess einmitt að sú áætlun sem lagt er upp með, að ná fram þessari hagræðingu, gangi eftir. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni ráðuneytisins og hv. samgöngunefndar að tryggja að svo verði og að sníða ágalla af þessu frumvarpi ef þeir eru fyrir hendi.