139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

385. mál
[16:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það getur vel verið að einhverjum þyki ég vera köttur, (ÁsbÓ: Nei.) en í kringum heitan graut fer ég ekki. Að uppistöðu til er minn skilningur sá að verið sé að færa gjöld sem eru til staðar inn í nýja stofnun. Það er heildarmyndin.

Eins og ég gat um áðan eru sum þessara gjalda bundin í lög og það þarf lagabreytingu til að breyta þeim. Ég gat um hvaða gjöld það voru. Það voru lofthæfisskírteini, síðan eru eftirlitsgjöld með þeim sem hafa tekið verðlagsbreytingum. Ég vísaði einnig til annarra gjalda sem hefðu gert slíkt hið sama. En þegar á heildina er litið er verið að setja upp það fyrirkomulag fyrir alla stofnunina að hún sé fjármögnuð með þessum hætti.

Ég ætla að fara varlega í að fullyrða í þessum efnum. Ég held ég sé ekkert villtur í málinu, alls ekki. Þetta er meginhugsunin í fjármögnun stofnunarinnar og sú meginbreytingin sem verður. Við erum að færa gjöld frá stofnunum sem verið er að leggja niður inn í nýja stofnun og færa sem sagt fjármögnunina til allrar starfseminnar.