139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála.

407. mál
[16:49]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi almennar athugasemdir hv. þingmanns held ég að það gæti orðið ágæt hefð að þingmál færu til kynningar í þingnefndum áður, bæði gæti það verið gott fyrir nefndina og fyrir þann sem leggur frumvörpin fram. Þannig gætum við hugsanlega komist hjá margvíslegum misskilningi og samræmt skilninginn. Hugsunin er sú að leggja málin fram í þingflokkum en það eru að vísu bara stjórnarflokkarnir sem fá þau, stjórnarandstaðan ekki. Þetta er ágæt ábending.

Það sem ég held að sé svolítið ruglandi í þessu er notkunin á hugtakinu „nefskattur“ vegna þess að nefskattur vísar í almennri umræðu til almenns skatts í þjóðfélaginu. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Í þessu tilviki er hins vegar ekki um slíkt að ræða. Í 5. gr. núgildandi laga segir, með leyfi forseta:

„Greiða skal sérstakan skatt, flugvallaskatt, vegna hvers manns sem ferðast með loftfari í flutningaflugi innan lands eða frá Íslandi til annarra landa.“

Það er vísað til notkunar. Breytingin er hins vegar sú að þessar skatttekjur sem runnu í ríkissjóð hætta sem slík skattheimta og verða að notendagjöldum sem renna til flugrekstraraðilans.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að notkun okkar á hugtakinu „nefskattur“ getur verið misvísandi.