139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála.

407. mál
[16:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. innanríkisráðherra getur treyst því að hann á hauk í horni þar sem ég er þegar hann hyggst beita sér fyrir frekari afrekum og framkvæmdum í vegamálum, ég tala nú ekki um ef þróttur hans og atgervi beinast að Árneshreppi.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir, hann var maður efasemda um EES-svæðið. Ég var honum auðvitað algjörlega ósammála. Þá vil ég taka fram að ég var hæstv. ráðherra líka algjörlega ósammála, eins og ég held u.þ.b. allir aðrir þingmenn, þegar hann hélt innblásnar ræður og skrifaði innblásna pistla á víðfræga heimasíðu sína um að bankarnir ættu að fara úr landi. Þá var hæstv. ráðherra ásakaður um að vilja reka bankana úr landi. Ég segi nú bara þegar maður lítur til baka: Ja, ég vildi að guð hefði hjálpað okkur til að fara að ráðum hæstv. ráðherra á þeim tíma, þá hefði margt kannski orðið öðruvísi.

Af því að við nefndum hér Evrópu er ég að öðru leyti sammála hæstv. ráðherra í grunnprinsippinu í því máli eins og öllum öðrum sem hann hefur beitt sér fyrir, þar sem hann hefur alltaf látið hugsjón sína um lýðræði vaka yfir ákvörðunum sínum og gerðum. Ég er algjörlega sammála hæstv. ráðherra um að í því efni er það fólkið og vilji fólksins sem á að fá að ráða. Ég geng þess ekki dulinn að hæstv. ráðherra kann í blæbrigðum að vera annarrar skoðunar en ég um t.d. aðild að Evrópusambandinu. Ég er hins vegar algjörlega sammála honum um að hvorki ég né hann eigum að kveða upp úr með það, heldur þjóðin. Í grundvallarafstöðu höfum við alltaf verið sammála.