139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

rannsókn samgönguslysa.

408. mál
[17:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Frumvarpið var unnið í samráði við fagaðila og tvívegis fór það í umsögn á netinu. Farið var skipulega yfir allar ábendingar sem fram komu og eftir atvikum reynt að verða við þeim. Það er hárrétt, sem fram kemur í máli hv. þingmanns, að ein megingagnrýnin sem fram kom á fyrra frumvarp var að vegna þess hve fækkað var í aðkomu stjórnarmanna og hugsanlega sérfræðinga yrðu menn nauðbeygðir til að kaupa utanaðkomandi þjónustu. Sú hætta er ekki eins fyrir hendi núna eftir fjölgunina og eftir að reynt er að tryggja aðkomu sérfræðinga að þessu starfi.

Ég hvet til þess að frumvarpið fari til rækilegrar skoðunar í samgöngunefnd þingsins. Þetta er mjög mikilvægur málaflokkur sem við þurfum að búa að á eins vandaðan hátt og nokkur kostur er.