139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[17:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir snöfurmannlega ræðu. Eins og hv. þingmaður gat um er hann flytjandi þessarar tillögu ásamt fjölmörgum öðrum þingmönnum. Þar á meðal er einn fyrrverandi ráðherra sem sat í þeirri ríkisstjórn sem var við völd þegar þessi ósköp gengu yfir. Ég er ekki alveg viss um að hann gæti að öllu leyti tekið undir allt það sem hv. þingmaður sagði í framsögu sinni og sem er í reynd tilefni þess að ég kem í ræðustól.

Ég tel það sjálfsagt að sú nefnd sem hv. þingmaður vísar málinu til, og eftir atvikum allsherjarnefnd líka, ræði og kanni þetta mál. Það er allt rétt sem hv. þingmaður segir um að sú aðgerð sem er andlag þessarar tillögu var röng, óréttmæt, ranglát og skaðaði íslenskt samfélag. Það er líka athyglisvert sem hv. þingmaður hefur eftir breska varnarmálaráðherranum sem sagði í viðtali við norskan fjölmiðil að sú ríkisstjórn sem nú situr í Bretlandi hefði ekki gert þetta. Það er alveg hárrétt hjá honum líka að draga þá ályktun af því að líkast til eru þeir til í breskri stjórnsýslu núna, eins og var líka að finna innan þeirra stjórnvalda sem eru ekki lengur við lýði, sem töldu þetta rangt. Ég er þeirrar skoðunar að mjög margir í Bretlandi sjái eftir þessu og telji þetta hafa verið ranga aðgerð sem var tekin í taugaveiklunarkasti. Hv. þingmaður gat í ræðu sinni um ummæli sem Alistair Darling hafði uppi sem voru beinlínis röng og sérlega til þess fallin að ýta undir þann skaða sem við höfðum þegar beðið. Hann hefði að ósekju líka mátt taka þá yfirlýsingu sem þáverandi forsætisráðherra, Gordon Brown, gaf á ferðalagi ásamt Alistair Darling daginn eftir þessa ákvörðun ef ég man rétt, man þó ekki gjörla dagsetninguna, þar sem hann talar um öll íslensk fyrirtæki undir sama hatti og þennan tiltekna banka. Hann felldi þar af leiðandi mjög dökkan og langan skugga yfir þau.

Ég segi hins vegar við hv. þingmann að það er einfaldlega rangt þegar hann heldur því fram að íslenska ríkisstjórnin hafi á sínum tíma skirrst við að fara í mál gegn breskum stjórnvöldum til þess, eins og hann orðaði það, að halda diplómatískum tengslum við bresk stjórnvöld. Það sagði hv. þingmaður í ræðu sinni og til að taka af allan vafa er þetta það sem ég tel að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson gæti ekki tekið undir. Ástæðan er sú að hann sat í þeirri ríkisstjórn, sem ég sat í líka, og það lá algjörlega ljóst fyrir á þeim tíma að íslenska ríkisstjórnin kannaði þá möguleika sem fyrir hendi voru til að fara með málsókn á hendur breskum stjórnvöldum. Það er það eina sem ég ætla að tala um. Ég ætla ekki að deila við hv. þingmann um annað og mér finnst hann hafa fullan rétt til að koma fram með þessa tillögu þó að hann og hans flokkur hefðu kannski að ósekju mátt gera það fyrir einu og hálfu ári. Tímasetningin núna er vafasöm, málið er vonandi að leysast með góðri hjálp þeirra samtaka sem hv. þingmaður gat réttilega um að hefðu skipt máli, þ.e. Indefence-samtakanna. Staðreyndin er sú að íslenska ríkisstjórnin leitaði sér lögfræðilegrar ráðgjafar og þeir ráðgjafar voru fyrst og fremst tveir. Annars vegar var það breska alþjóðlega lögfræðistofan Lovells sem vann rannsókn á þessu máli og kannaði ítarlega möguleika íslensku ríkisstjórnarinnar til að fara í mál við breska ríkið á þeim grundvelli að hryðjuverkalögin réttlættu ekki þessa ákvörðun. Hinn aðilinn var ríkislögmaður sem gaf svipað álit á þessu.

Frá því er skemmst að segja að niðurstaða þessara lögmanna sem voru fengnir til að leggja mat á það hvort hægt væri að hnekkja ákvörðuninni fyrir breskum dómstólum á grundvelli sjónarmiða um ólögmæti og þar með hvort íslensk stjórnvöld gætu höfðað skaðabótamál fyrir breskum dómstólum var mjög afdráttarlaus. Breska lögfræðistofan, en álit hennar kostaði held ég hátt í 200 millj. kr., taldi að það væru litlar sem engar líkur á því að íslensk stjórnvöld gætu hnekkt ákvörðuninni fyrir breskum dómstólum. Þeir rökstuddu niðurstöðuna ítarlega með tilliti til þeirra laga sem giltu í Bretlandi og sömuleiðis dómafordæma. Lögfræðistofan komst að sömu niðurstöðu og sá finnski þingmaður komst að sem fyrir hönd Evrópuráðsins fjallaði um þetta mál á vettvangi þess og var lýst í dag af tveimur fulltrúum íslenska þingsins í Evrópuráðinu. Hún var sú að bresku lögin veittu þeim stjórnvöldum sem þá voru við völd heimildir til að beita þessum ákvæðum. Það var það sem þessi finnski þingmaður komst líka að fyrir hönd Evrópuráðsins, alveg eins og Lovells og alveg eins og ríkislögmaður. Þetta var ástæðan en ekki skortur á vilja að íslenska ríkið á sínum tíma tók ákvörðun um að fara ekki í dómsmál. Ráðgjöfin var sú að það væru litlar sem engar líkur á því að það væri hægt að hnekkja þessu og enn minni líkur á því að hægt væri að afla einhvers konar skaðabóta fyrir þetta.

Á þeim tíma var líka talið hugsanlegt að það væri hægt að hefja málsókn fyrir alþjóðlegum dómstóli, einkum og sér í lagi Mannréttindadómstólnum, til að afla a.m.k. skaðabóta fyrir gerninginn. Því var þá velt upp að það yrði gert á grundvelli þess að kyrrsetning eigna skaðaði mannréttindi einstaklinga. Án þess að ég hafi skoðað það neitt frekar eru þær forsendur a.m.k. ekki lengur fyrir hendi vegna þess að kyrrsetningunni var aflétt fyrir meira en ári. Þetta er ástæðan og eina ástæðan fyrir því að íslensk stjórnvöld fóru ekki í þessa lögsókn. Þess vegna er það rangt ef hv. þingmaður segir það fullum fetum að það hefði verið meðvituð ákvörðun hjá íslenskum stjórnvöldum að gera það ekki til að halda diplómatískum tengslum. Það hefur aldrei verið rætt og kom aldrei til álita. Það var fyrst og fremst á grundvelli þessa lögfræðiálits, álits ríkislögmanns, sem ekki var ráðist í þá málsókn.

Þetta vildi ég að lægi algjörlega skýrt fyrir í umræðunni til að það lægi ekki eftir hana að það hefði skort á vilja af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég bendi síðan á að í kjölfarið lagði einn þáverandi stjórnarliði fram frumvarp um að styðja skilanefnd (Gripið fram í.) Kaupþings banka til að fara í sérstakt mál. Og það voru taldar töluvert meiri líkur á því að hægt væri að hefja það mál. Nú bið ég hv. þingmann að rifja það upp fyrir mér. Niðurstaða þess var að hver einasti þingmaður, ef ég man rétt, greiddi atkvæði með því að íslenska ríkið mundi styðja með fjárhagslegum framlögum þá málsókn. Ég bið hann líka að rifja upp hvort ekki sé rétt munað hjá mér að slíkt mál hafi verið höfðað. Það gjörtapaðist og því var ekki einu sinni áfrýjað.