139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[17:39]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að þeir samningar sem nú liggja fyrir varðandi hið svokallaða Icesave-mál eru vitanlega miklu betri en þeir samningar sem hæstv. ráðherra var svo hrifinn af og vildi endilega að Alþingi og þjóðin samþykktu að legðist á herðar þjóðarinnar fyrir nokkrum vikum eða mánuðum. Þá var sá gállinn á hæstv. ráðherra, sem er rétt að ég hlæ stundum að enda skemmtilegur og kátur karl. Fyrirgefið, frú forseti, þetta orðalag. (Utanrrh.: Maður á besta aldri.) Maður á besta aldri. En þeir samningar sem nú liggja fyrir eru engu að síður með mikilli áhættu og það hefur verið sýnt fram á að sú áhætta getur falið í sér tugi og jafnvel hundruð milljarða fari allt á versta veg.

Það er ágætt að hæstv. ráðherra hafi skýrt orð sín varðandi það mál sem „sé að leysast“.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau orð sem hann hafði í upphafi ræðu sinnar, ef ég skildi hann rétt, að hæla í sjálfu sér því að málið skyldi vera komið inn í þingið til umræðu, eins og við eigum að taka á stórum málum sem þessu. Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra leggi sitt lóð á vogarskálina þegar framkvæmdarvaldið fær tillögu frá Alþingi í hendur, sem verður vonandi mjög fljótlega, og að málinu verði fylgt eftir af mikilli hörku og festu gagnvart Bretum og þeir færustu sérfræðingar sem völ er á verði fengnir til að fylgja því eftir.