139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[17:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekkert á móti því að tillaga af þessu tagi komi fram. Ef mál hv. þingmanns á við raunveruleg rök að styðjast þá vænti ég þess að það komi fram við rannsókn þess í nefndum þingsins. Ég ímynda mér að hv. þingmaður muni gera rek að því að til verði kallaðir allir færustu sérfræðingar til að skoða hvort við höfum raunverulegan grundvöll til málshöfðunar og krafna um skaðabætur. Rétt skal vera rétt. Við gerum það sem rétt er í þessu máli.

Ef ríkisstjórnin hefði á sínum tíma talið föng til að fara í þessa málsókn þá hefði hún gert það. Það var niðurstaða alþjóðlegrar lögfræðistofu, sem er tiltölulega þekkt á þessu sviði, og það var líka niðurstaða ríkislögmanns Íslands að litlar sem engar líkur væru á því. Það getur vel verið að þeir hafi haft rangt fyrir sér. Það getur vel verið að Björg Thorarensen prófessor, sem ég hef fulla trú á eins og hv. þingmaður veit, og situr í mikilvægum nefndum fyrir íslenska ríkið, hafi rétt fyrir sér. Komi það fram mun ekki liggja á liði utanríkisráðherra eða framkvæmdarvaldsins til að ná því sem rétt er.