139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[17:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel sóma að því að vera líkt við dýr, ég tala ekki um tignarlegt dýr, jafnvel sleipt dýr eins og álinn. En ég er heldur ekki kjarklaus og ætla að leyfa mér að leggja höfuðið í gin ljónsins, sjálfs formanns Framsóknarflokksins. Ég ætla að halda því fram að ef hann hefur rétt fyrir sér þegar hann segir að hann og aðrir í Framsóknarflokknum hafi bent á veilur í röksemdafærslu lögfræðistofunnar þá hefur hann ekki staðið sig í stykkinu sem þingmaður. Hann er búinn að sitja hér í hartnær tvö ár og það er fyrst núna sem hv. þingmaður er væntanlega aðili að þessari þingsályktunartillögu. Ef hv. þingmaður var algerlega viss um að rök ríkislögmanns og þessarar alþjóðlegu lögfræðistofu, Lovells, voru svona vitlaus hvers vegna í ósköpunum, svo ég noti ekki sterkari orð, hefur hann ekki lagt þessa tillögu fram fyrr? Það yrði væntanlega til mikils gagns fyrir þjóðina ef hann hefur lög að mæla. En staðreyndin er einfaldlega sú að þetta var matið á þeim tíma.

Ástæðan fyrir því að ég kem og tala í umræðunni er sú að ég virði þessa þingsályktunartillögu. Það er ekki alltaf sem ráðherrar koma og blanda sér í mál af þessum toga. Ég tel hins vegar að það séu alla vega lögmæt viðhorf sem að baki henni liggja og þess vegna tek ég þátt í umræðunni. Mér finnst sjálfsagt að skoða tillöguna í tætlur í nefnd og ef fram koma rök sem eru í þessum anda þá á að sjálfsögðu að samþykkja hana og ganga til verks. Ég var á sínum tíma aðili að ríkisstjórn sem taldi að svo væri ekki. Það voru ekki færð fram giska sterk rök andspænis þeim sem komu fram í álitinu. Álitið var gert opinbert, held ég, einhvern tíma fyrir miðbik janúar 2009 þannig að það er búið að liggja fyrir mjög lengi. Hitt kann vel að vera að hv. þingmaður, sem ég veit að er mörgum mönnum snjallari, kannski ekki öllum, og hans sérfræðingar hafi rök sem dugi til að hnekkja þeim sem fyrir liggja. Þá koma þau væntanlega fram við rannsókn þessa máls í þinginu.