139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[17:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Forseti. Þótt hæstv. utanríkisráðherra sé háll sem áll og snjall sem refur þá er hann ekki minnugur eins og fíll (Gripið fram í.) vegna þess að á þeim tíma þegar þessi ákvörðun var tekið var ég ekki þingmaður. Ég var að vísa til Indefence-hópsins en ekki Framsóknarflokksins þótt hvor tveggja sé í alla staði mjög góð samtök.

Ég ætla að lesa upp byrjunina á frétt úr mbl.is frá 2010, frá því fyrir nánast ári síðan, 27. janúar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hæstiréttur Bretlands hefur úrskurðað að ákvörðun breska fjármálaráðuneytisins um að frysta eignir meintra hryðjuverkamanna sé ólögleg. Bresk stjórnvöld beittu hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum og Íslandi í kjölfar hruns Landsbankans í október 2008. Með þeim voru eignir Landsbankans á Bretlandseyjum frystar vegna greiðsluþrots netbankans Icesave.“

Svo er farið yfir það hvers vegna hæstiréttur Bretlands hafi komist að þessari niðurstöðu og þar eru færð fyrir því sömu rök og við bentum á að Íslendingar ættu að beita þegar þeir voru í þessari stöðu. Dómurinn fjallar sem sé um aðra meinta hryðjuverkamenn en Íslendinga. En þetta vildu menn ekki nýta og það var alveg meðvituð stefna hjá núverandi ríkisstjórn. Hún vildi ekki nýta þetta, hún vildi ekki einu sinni gera athugasemdir við að hryðjuverkalögum hefði verið beitt. Með því á ég við athugasemdir í samræmi við tilefnið. Aftur og aftur var bent á mikilvægi þess að menn settu a.m.k. hnefann í borðið og gerðu við þetta athugasemdir og jafnframt var bent á upplýsingalegt og áróðurslegt gildi málaferla. Ekki var hlustað á það, ekki fyrr en breska þingið fordæmdi í raun sjálft eigin ákvörðun, fjárlaganefnd breska þingsins gagnrýndi beitingu hryðjuverkalaganna, þá kom hver samfylkingarmaðurinn á fætur öðrum upp í ræðustól og sagði að það hefði verið alveg hræðilegt að Íslendingar hefðu verið beittir hryðjuverkalögum. Þeir höfðu ekki viljað gera athugasemd við það fyrr. (Forseti hringir.)