139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[18:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alltaf er gaman að fara í andsvör við hæstv. utanríkisráðherra. Ekki er hægt að fá hæstv. ráðherra til að svara málefnalega heldur slær hann keilur og telur það fyndið. Hann má vera með þá reiknireglu sem hann kýs, m.a. hvað Framsóknarflokkurinn sparaði þjóðinni. Þetta liggur ljóst fyrir. Við þurfum ekki að deila um að hagstæðari samningar náðust. Ég legg áherslu á að Íslendingum ber ekki lagaleg skylda til að standa undir þessum skuldbindingum. Ég vísa þar í reglugerð Evrópusambandsins sem lögtekin var árið 1996 eða 1997 og byggist á reglum Evrópusambandsins þar sem beinlínis er lagt bann við að bankastofnanir á samkeppnismarkaði setji ríkisábyrgð á innstæður sínar. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra ætti að rifja málið upp. Ég bið hann einnig að rifja upp þegar ég fór í andsvar eftir andsvar við hann um það þrætumál hvort hægt væri að koma Icesave fyrir dómstóla eða ekki. Hæstv. utanríkisráðherra stólar á skammtímaminni þeirra sem hlusta á þessar umræður en ég man vel og hef gott minni.

Hér er nýfallinn dómur Hæstaréttar sem ógilti stjórnlagaþingið. Samfylkingin þorir ekki með málið fyrir EFTA-dómstólinn og segir að niðurstaðan gæti orðið verri. Við gætum þurft að borga alla skuldina. Þetta er hræðsluáróður því þegar dómstólar hafa ekki lög til að dæma eftir þá er málinu annaðhvort vísað frá eða gagnaðilinn ber kostnað sem í samningunum felst. Ég bið hæstv. utanríkisráðherra að hætta þessum hræðsluáróðri. Það er engin áhætta að fara með málið fyrir dómstóla, sérstaklega þegar við höfum það unnið.