139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[18:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég hafði nokkrar athugasemdir í viðbót við málflutning hæstv. utanríkisráðherra. Ég ætla að bíða og sjá hvort tími verður til þess á eftir enda ástæðulaust að við séum stöðugt að skamma hæstv. utanríkisráðherra sem þó sýnir þá viðleitni að mæta og ræða málið. Sama verður því miður ekki sagt um aðra stjórnarliða og restina af stjórnarandstöðunni. Það er lýsandi fyrir andvaraleysið sem hefur verið ríkjandi hvað þetta mál varðar. Hæstv. utanríkisráðherra má eiga það að hann hefur stundum sýnt smátilburði en verið í erfiðum félagsskap til að láta almennilega finna fyrir sér.

Ég vil minna á þegar hæstv. utanríkisráðherra afþakkaði bresku orrustuþoturnar sem stefndi í að kæmu til Íslands. (Utanrrh.: … samstarfsaðila núverandi stjórnarandstöðu.) Þetta var flókið frammíkall. Hæstv. utanríkisráðherra vísaði til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki fagnað athugasemdum hans. Það kann að vera rétt, enda hefur frammistaða Sjálfstæðisflokksins í þessu máli ekki verið til fyrirmyndar. Hæstv. utanríkisráðherra nefndi áðan að formaður flokksins hefði lítinn áhuga haft á málaferlum vegna þessa máls. Það er blæbrigðamunur þar á. Ég held að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og aðrir þingmenn flokksins væru opnari fyrir slíku núna, enda eru nokkrir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins með á þingsályktunartillögunni sem hér er til umræðu.

Það liggur fyrir, eins og hv. flutningsmaður tillögunnar, Gunnar Bragi Sveinsson, fór ágætlega yfir, að beiting Breta á hryðjuverkalögunum, það er óumdeilt að þeir beittu hryðjuverkalögum og flokkuðu Ísland með hryðjuverkamönnum á borð við al Kaída, olli okkur miklum álitshnekki, þó sérstaklega miklu efnahagslegu tjóni á versta hugsanlega tíma. Það og aðrar aðgerðir breskra stjórnvalda á þessum tíma, m.a. lýsti forsætisráðherra Bretlands og fjármálaráðherra opinberlega yfir að Ísland væri gjaldþrota ríki og allar eigur Íslendinga hvar sem til þeirra næðist yrðu frystar alveg óháð tengslum við Icesave eða önnur mál, olli gífurlegu tjóni. Eins og ég nefndi í andsvari áðan við hæstv. utanríkisráðherra þá fylgdist ég vel með gangi málsins. Ég var í tengslum við menn sem höfðu orðið fyrir verulegu tjóni, ráku útflutnings- og innflutningsfyrirtæki. Öll fyrirtæki, held ég mér sé óhætt að segja, sem störfuðu annaðhvort í mikilvægum útflutningsgreinum eða fluttu inn lyf og eldsneyti, lentu í verulegum erfiðleikum vegna þessa. Ráðherrar úr ríkisstjórninni sem þá sat hafa lýst ástandinu sem ríkti á þessum tíma. Ísland var beinlínis sett í verulega hættu. Hætta var á að hér yrði skortur á eldsneyti, nauðsynlegum lyfjum og öðrum vörum sem erfitt er að komast af án. Þetta hefði getað leitt til algers upplausnarástands svo ekki sé minnst á efnahagslegt tjón, enn meira en varð.

Með þessum aðgerðum settu bresk stjórnvöld Ísland í verulega hættu. Þau spörkuðu í liggjandi mann. Ísland er fyrsta landið sem fór illa út úr fjármálakrísunni sem enn gengur yfir. Þau hjálpuðu ekki Íslendingum, þvert á móti. Það birtist meðal annars í að tveir breskir bankar í eigu Íslendinga voru keyrðir í þrot, þeim var lokað. Þetta voru Kaupthing Singer & Friedlander annars vegar og Heritable Bank hins vegar. Síðan kom í ljós þegar bankarnir voru gerðir upp að þeir höfðu ekki verið gjaldþrota. Þeir voru ekki einu sinni í efnahagslegum erfiðleikum samanborið við flesta aðra breska banka. Það er orðið ljóst að þeir munu geta greitt öllum kröfuhöfum sínum til baka sem er ótrúlegt þegar gjaldþrota banki er annars vegar. Það er alþekkt að eignirnar rýrna strax og banki er settur í þrot. En þeir munu líklega geta greitt öllum kröfuhöfum og tjónið sem varð af aðgerðum breskra stjórnvalda, og bitnar m.a. á íslenskum lífeyrissjóðum, er verulegt. Það hefur engin tilraun verið gerð til að fá bætur fyrir þetta eða annað tjón sem aðgerðir breskra stjórnvalda leiddu af sér.

Í umræðunni hefur því verið haldið fram, m.a. af hæstv. utanríkisráðherra, að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hefðu ekkert til að byggja mál sitt á. Það er alrangt. Þetta er hæpin túlkun á því sem liggur fyrir um málið eins og reyndar hefur sannast í millitíðinni þegar hæstiréttur Bretlands úrskurðaði um að beiting hryðjuverkalaganna til að frysta eignir grunaðra hryðjuverkamanna hefði verið ólögmæt. Rök hæstv. utanríkisráðherra voru að þar hefði verið um raunverulega hryðjuverkamenn að ræða sem mér þóttu undarleg rök. Hefði verið ólögmætt að frysta eignir raunverulegra hryðjuverkamanna með hryðjuverkalögunum en í lagi að frysta eignir þeirra sem ekki eru hryðjuverkamenn? Því miður er hæstv. utanríkisráðherra farinn úr salnum og getur ekki útskýrt nánar hvað hann átti við með þessu.

Á þeim tíma þegar ákvörðun var tekin um að fara ekki í mál vegna þessa sendu Indefence-samtökin, sem hafa oft verið nefnd í þessari umræðu, frá sér yfirlýsingu. Hún hefst svo, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkisvaldið tók þá ákvörðun nýverið að höfða ekki mál fyrir breskum dómstólum vegna beitingar hryðjuverkalaganna hinn 8. október síðastliðinn. Ein röksemdin var að kostnaðurinn við málaferlin sem áætlaður var 200 milljónir íslenskra króna væri of mikill með tilliti til hugsanlegs ávinnings. Þó eru þessar 200 milljónir einungis vel innan við 0,1% af væntanlegum skuldbindingum íslenskra skattþegna vegna uppgjörs Icesave-reikninganna. Með þessum rökum eru stjórnvöld að spara aura, en kasta krónum. Aðrar röksemdir ríkisstjórnar voru þær að málsókn væri ólíkleg til að skila tilætluðum árangri og gæti stefnt „samningaviðræðum um Icesave-reikningana í hættu“. Hvorug þessara fullyrðinga hefur verið studd með rökum eða gögnum sem almenningur hefur aðgang að.“

Þetta var einmitt málið. Þetta voru rökin á sínum tíma, það mátti ekki rugga bátnum með því að sækja þetta mál. Menn vildu kaupa sér frið í yfirvofandi samningaviðræðum um Icesave. Ég man vel eftir margítrekuðum yfirlýsingum þess efnis, bæði opinberum og ekki hvað síst manna á milli í þinginu, því eins og ég nefndi áðan fylgdist ég vel með umræðum um þetta mál. Með því að fara ekki í mál væru menn líklega að spara sér töluverðan pening vegna þess að þá fengjum við á móti miklu betri samninga varðandi Icesave. Menn töldu sig samt hafa fengið pata af að ef menn létu málin niður falla þá yrði samið um Icesave á ásættanlegum nótum. Þetta voru rök sama eðlis og síðan var beitt þegar menn vildu keyra Icesave 1 og Icesave 2 í gegnum þingið. Það var gefið í skyn að ef við samþykktum yrði málið tekið upp síðar og við fengjum endurútreikninga á þessu öllu saman. Þetta er viðhorfið sem hefur verið ríkjandi, menn reyna að kaupa sér frið. Hver hefur árangurinn verið af því? Hann er að sjálfsögðu enginn og hefur valdið okkur miklu tjóni sem við höfum sem betur fer náð að draga töluvert úr en ekki er útséð hvernig það endar.

Í lokin vil ég nefna það að leita til Mannréttindadómstólsins í Strassborg og vísa í frétt úr Morgunblaðinu frá febrúar 2009. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld hafa hætt við áform um að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna þeirrar ákvörðunar breskra stjórnvalda að beita hryðjuverkalögum til að frysta eignir Landsbankans. Breska blaðið Financial Times hefur eftir Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra að engin áform séu af hálfu íslenskra stjórnvalda að leita til dómstóla vegna þessa máls.“ — Dómstóla yfir höfuð. — „Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lýsti því yfir í janúar að verið væri að skoða hvort leita ætti til mannréttindadómstólsins þar sem aðgerðir Breta hefðu grafið undan íslenska bankakerfinu og átt þátt í hruni þess. Financial Times segir að ríkisstjórn Samfylkingar og VG vonist hins vegar til að ákvörðun um að falla frá áformum um málaferli muni gefa til kynna að nú sé horft á málin af meira raunsæi en áður. „Þetta er eitt af þeim málum sem greiða þarf úr í tengslum við uppbyggingu fjármálakerfisins og endurreisn ríkissjóðs,“ hefur blaðið eftir Gylfa Magnússyni.“ Því er fagnað að íslenska ríkisstjórnin muni ætla að falla frá öllum málaferlum til að kaupa sér velvild í Bretlandi.