139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:02]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegur forseti. Framtakssjóður Íslands hafnaði í gær tilboði fjárfestingarsjóðsins Tritons í verksmiðjurekstur Icelandic Group og er viðræðum nú lokið. Jafnframt hefur Framtakssjóðurinn nú ákveðið að selja verksmiðjur fyrirtækisins í Bandaríkjunum og framleiðslustarfsemina í Kína í opnu söluferli. Þetta ferli allt hefur sætt mikilli gagnrýni af hálfu þingmanna og að margra mati er ljóst að ef vilji er til þess að byggja upp siðferðið hér á nýjan leik og heilnæmt og gott viðskiptalíf þurfa aðilar sem standa að sölu fyrirtækja að standa almennilega að hlutunum. Það var ekki í þessu tilviki því að ljóst má vera að ef aðilar innan viðskiptaheimsins, Framtakssjóður eða aðrir, vilja byggja upp traust og að friður ríki um störf þeirra hljóta menn að íhuga vandlega vinnubrögð sín að þessu loknu og læra af þessari reynslu. Annars geta menn svo sem átt von á því að þingmenn verði á bakinu á þeim í framtíðinni.

Í ljósi þessa vil ég, virðulegur forseti, íhuga með samþingmönnum mínum hvaða lærdóm við eigum að draga af þessari reynslu. Ég dreg helst fram þrennt:

1. Að viðskiptalífið læri af þessu ferli öllu og taki vinnubrögð sín til endurskoðunar.

2. Að Alþingi haldi áfram að sinna eftirlitshlutverki sínu og fái tæki og tól til að sinna því með betri hætti en áður. Í gær voru t.d. umræður um trúnaðinn í þingmönnum og tel ég það vel.

3. Ég kalla eftir því að við setjum skýran lagaramma um hvernig standa beri að sölu fyrirtækja til einkaaðila á nýjan leik. Vilji þingmanna verði þannig skýr því að á næstu árum mun ríkið selja frá sér t.d. sparisjóðina og Landsbankann.

Þetta þrennt vil ég draga fram í ljósi þeirra atburða sem nú hafa gengið á.