139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:13]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að koma fram með smáábendingu til þingsins um upplýsingar sem ég hef safnað saman í vinnu minni við nefndarálit um Icesave en það má kalla stórfelldan fjáraustur hæstv. fjármálaráðherra í gjaldþrota fjármálafyrirtæki. Hér er um að ræða verulegar upphæðir, 26 milljarða vegna VBS, 12 milljarða vegna Sjóvár, 20 milljarða vegna Sögu Capital, 6 milljarða vegna Aska Capital, 5 milljarða vegna Byrs, 14 milljarða vegna Sparisjóðs Keflavíkur og væntanlega 3,5 milljarða vegna Byggðastofnunar. Alls gerir þetta 87 milljarða án beinna heimilda annarra en óljósra tilvísana í neyðarlögin sem átti að endurskoða 1. janúar 2011. Að auki hefur fjármálaráðherra gengist í ábyrgð eða loforð fyrir ábyrgðum upp á 141 milljarð til Arions banka og Íslandsbanka vegna yfirtöku á þrotabúum SPRON/Dróma annars vegar og Straums – Burðaráss hins vegar. Auk þess hefur hæstv. fjármálaráðherra gefið út yfirlýsingu um að allar innstæður í bönkum og fjármálastofnunum séu með ríkisábyrgð án þess að Alþingi hafi samþykkt það sérstaklega.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að umræða undanfarinna daga um t.d. Sparisjóð Keflavíkur er alveg hrikaleg. Það getur ekki verið að hv. þingmenn líði það lengur að hæstv. fjármálaráðherra gangi fram með þessum hætti og ausi peningum í fyrirtæki sem voru rænd að innan af glæpamönnum. Það er ekkert verið að gera af hálfu framkvæmdarvaldsins til að kyrrsetja eigur þeirra manna sem stóðu að þessu ráni. Þetta er alveg fráleitt fyrirbæri og ég skora á þingmenn að kynna sér (Forseti hringir.) þessi mál betur og láta sig þau varða.