139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að lýsa furðu minni á því að þingflokksformaður Framsóknarflokksins skuli kalla eftir afsögn seðlabankastjóra eins og hann gerði hér. Ég hefði haldið að forustumenn í stjórnmálaflokkum á Íslandi þyrftu að sýna nokkuð meiri ábyrgð þegar þeir tjá sig um forustuhlutverk og lykilatriði í efnahagsmálum þjóðarinnar vegna þess skorts á trúverðugleika sem við eigum þar við að glíma.

Um leið vil ég taka undir það með þingmönnum að það er mikilvægt að skerpa á rétti þingnefnda til upplýsinga. Ég held að salan á Sjóvá, Icelandic og ýmsum öðrum fyrirtækjum árétti það við þingið að við þurfum að setja lög um einkavæðingu fyrirtækja í almannaeign þannig að leikreglurnar séu kýrskýrar, opnar og gegnsæjar. En það stendur upp á okkur í þinginu. (Gripið fram í: Það eru reglur um þetta.)

Ég kom hins vegar hingað upp til að gera að umtalsefni sjávarútveginn á Íslandi en upplýsingar um afkomu hans hafa nú verið birtar af Hagstofunni fyrir árið 2009. Það er mikið fagnaðarefni að gríðarlegur hagnaður er í sjávarútveginum, upp á 45 milljarða árið eftir hrun. Um leið og það er fagnaðarefni er það áhyggju- og umhugsunarefni að af þeim mikla hagnaði er ekki gert ráð fyrir því að greinin skili nema um 3 milljörðum í veiðigjald. Þetta er á tímum þar sem allir í þessu samfélagi, allar atvinnugreinar og öll heimilin í landinu, eru að leggja verulega hart að sér til að hjálpast að við að ná endum saman í þjóðarbúinu. Ég held að það sé eðlileg réttlætiskrafa að hlutdeild í þessum gríðarlega hagnaði komi til almennings sem er eigandi auðlindarinnar, hann á með réttu tilkall til þess hagnaðar. Engu að síður er pláss fyrir myndarlegan hagnað fyrir þá aðila sem gera út og veiða fisk. Ég held að þessar tölur, um 45 milljarða hagnað samkvæmt greiðsluuppgjöri Hagstofunnar fyrir árið 2009, skerpi á þeim ásetningi í þinginu að gera þær nauðsynlegu breytingar sem gera þarf á fiskveiðistjórnarkerfinu.