139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Það er rétt að það er langt síðan fyrstu hugmyndir komu upp um þetta ECA-verkefni í samgönguráðuneytinu og meðan ég var þar var það kannað mjög vel. Ég hef alla tíð stutt þetta, fundist þetta hugmynd sem full ástæða væri til að skoða í botn. Ég hef alltaf sagt að öll atvinnutækifæri á Íslandi, og ég tala ekki um á Suðurnesjum, verði að skoða. En við skulum líka hafa í huga að af hverjum 10 atvinnutækifærum sem verið er að ræða verður kannski eitt til. Þess vegna var það sem þetta var sett í ákveðinn farveg með bréfi til Flugmálastjórnar sem var stutt af hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Bréfið var um það að hefja undirbúning eða kanna hvað þyrfti að gera til að veita starfsleyfi fyrir þessa starfsemi.

Nú verður það að segjast eins og er, virðulegi forseti, að ég veit ekki hvað hefur gerst eftir það. Ég hef ekki séð hvort Flugmálastjórn er búin að skila af sér og ég hef heldur ekki séð það sem einhver blaðamaður spurði mig að ekki alls fyrir löngu, hvað mér fyndist um einhverja ákvörðun sem búið væri að taka í þessu sambandi. Ég hef ekki tekið eftir neinni ákvörðun um þetta, hvorki af né á. Og ég vona að svo sé ekki vegna þess að full ástæða er til að skoða þetta. Ég ítreka það (Forseti hringir.) sem ég sagði áðan: Þetta er hollenskt félag á hinu Evrópska efnahagssvæði og að mínu mati er ekki hægt að neita þeim um komu. Og þetta eru ekki herflugvélar. Þetta er viðhaldsstöð fyrir flugvélar sem búið er að taka allt hernaðarlegs eðlis úr en líta út eins og sambærilegar herflugvélar.