139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:24]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma aðeins inn í þá umræðu sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hóf áðan um störf nefnda og upplýsingagjöf til þeirra. Ég er algerlega sammála því sem hefur komið fram í umræðunni, frú forseti, að það þurfa að vera mjög skýrar reglur settar af þinginu um það með hvaða hætti þingnefndum eru gefnar upplýsingar. Ég sat sjálfur þann fund sem hefur verið nokkuð til umræðu þar sem gekk erfiðlega að fá fram upplýsingar frá tilteknum embættismanni. Það hefur nokkuð verið rætt á göngum þingsins síðan að þetta hafi ekki verið sérlega heppilegt og um þetta þurfi að vera skýrar reglur. Ég vil hvetja frú forseta til að leggja vinnu í það mál.

Það er annað sem mig langar líka að ræða í sambandi við störf þingsins og það er að hér átti í gær að fara fram atkvæðagreiðsla sem gerði það að verkum að þingmenn sátu hér allmargir í alllangan tíma án þess að næðist að safna saman nægilega mörgum þingmönnum til að greiða atkvæði. Ég er afar hissa á þessu og það er náttúrlega við okkur öll að sakast en þingmenn eiga ekki að láta þetta henda sig.

Að lokum langar mig aðeins (Gripið fram í: … stjórnarliðar hér í salnum.) — ég sagði þetta á við um okkur alla. (Gripið fram í.) Að lokum langar mig aðeins að geta þess sem komið hefur verið inn á í sambandi við Læknavaktina, sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom inn á áðan. Eins og þingmönnum er vafalítið kunnugt um hefur það komið fram í fjölmiðlum að báðir aðilar sem komu að þessum samningi, þ.e. bæði velferðarráðuneytið og Læknavaktin, segjast í fjölmiðlum vera full vilja til samninga. Ég held að við sem þingmenn og löggjafarsamkunda eigum bara að treysta á að þessir aðilar á markaðnum, frjálsum markaði heilbrigðisþjónustu, komi sér saman um með hvaða hætti þeir semja.