139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Helga Hjörvars áðan um seðlabankastjóra og þingflokksformann Framsóknarflokksins hef ég, þó að ég hafi ekki verið í þinginu á þeim tíma og hafi engan sérstakan áhuga á að verja Davíð Oddsson, grun um að sá ágæti þingmaður hafi öðru hverju farið fram á afsögn hans á ekki síður efnahagslega viðkvæmum tímum.

Ég ætla að koma hingað upp og blanda mér í umræðuna um hið gegnsæja söluferli og taka undir að það er ákaflega mikilvægt að við reynum að taka á því innan þingsins í þeim nefndum sem um það þurfa að véla. Við framsóknarmenn höfum meðal annars, og 1. flutningsmaður þar er Birkir Jón Jónsson, talað um uppboðsmarkað. Það er ákaflega mikilvægt að reyna að koma því á þannig að þetta sé svolítið gegnsærra en það er í dag. Við höfum jafnframt velt því fyrir okkur hvort hægt væri að koma á skyldu til að auglýsa í þessu opna söluferli með sama hætti, setja það í lög, og við þekkjum t.d. frá bandarískum rétti. Þegar DeCode fór í gjaldþrot á sínum tíma í Bandaríkjunum þurfti það að sæta slíku. Mér fyndist líka áhugavert ef menn mundu skoða hvernig við gætum stöðvað kennitöluflakk, sem er algerlega óskiljanlegur ósiður á Íslandi. Menn virðast geta komist upp með að snúa við blaðinu eins og ekkert hafi í skorist og halda áfram og jafnvel að bankarnir leggi til að menn geri það.

Þar sem illa hefur farið í þessu ágæta ferli okkar þá get ég nefnt nokkur dæmi um það þegar menn hafa farið aðra leið en eftir þeim reglum sem þó hafa verið settar. Það má til að mynda nefna Íslenska aðalverktaka, það má nefna Sjóvá og það má nefna Tríton. Allt þetta eru dæmi um það þegar menn ætla að fara fram hjá gegnsæjum kerfum, reglum sem hafa verið settar, og reyna að fara í einhverja prívatsamninga á bak við tjöldin. Og þau hafa öll farið illa. En skýrslan sem við fórum í í þingmannanefndinni og samþykkt var hér á að vera okkur stöðug áminning um það með hvaða hætti við ættum að haga okkur í þinginu. Þar er tekið á mörgum málum sem við ættum að skoða á hverjum einasta morgni áður en við mætum til vinnu.