139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:29]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að bera það fram við forsetann að gefa þingheimi fyrr en seinna skýringu á því hvers vegna gluggatjöld eru alltaf dregin fyrir. Það er alsiða hjá fólki í hinum vestræna heimi að draga gluggatjöld frá að morgni dags og þannig hefur það verið hér um áratugaskeið. En hins vegar hafa ákveðnir klúbbar í Ameríku og Asíu tíðkað það að halda fundi fyrir luktum gluggum. Það skiptir máli að fólki líði vel í þessum þingsal, nógu er þungt loftið, bæði af loftslagsástæðum og innra hugarástandi. Stundum voru gluggar líka opnir í þingsal og því segi ég, með leyfi forseta: Ég veit vel að skýringin er sú að linsan hérna þoli ekki speglunina. En þá skipta menn bara um linsu. Það er líka hægt að setja spegladempun í gluggana, ósýnilega — þetta er bara verkefni sem þarf að leysa. Því segi ég, með leyfi forseta:

Að horfa í birtuna er heillandi og ljúft

og hluti af lífsins sól.

Það er hvíld fyrir sálina og sefar margt hrjúft

er sækir í mannanna ból.

Við lifum hér fyrir luktum tjöldum

í lotlegum gömlum tón.

Það er betra í birtunni að deila völdum

en berjast í rökkri við ljón.

Virðingar forseti, taktu nú tjöldin frá

svo tærleikinn flæði skjótt.

Það er undarleg gjörð og heldur grá

að gera daginn að nótt.

Hver gluggi er gjöf með birtu í bæ

gjöf til að njóta hvers dags.

Birtan er sólblik úr himnanna sæ

og styrkir til betri hags.