139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:32]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir hvatningu hv. þm. Kristjáns Möllers og Árna Johnsens um að núverandi innanríkisráðherra gefi þinginu formlega skýrslu um niðurstöðu um þjónustuþotuverkefni ECA. Fyrrverandi ráðherra setti málið í ákveðinn farveg og nú skiptir máli að núverandi ráðherra geri formlega grein fyrir lyktum málsins. Þarna var um að ræða verkefni sem hefði í för með sér á annað hundrað störf, fjölbreytt störf sem gera m.a. kröfu um tæknimenntun, og milljarðafjárfestingu inn á svæði þar sem núna er yfir 13% atvinnuleysi. Það skiptir miklu máli að kanna hratt og til hlítar hvert einasta tækifæri sem gefst.

Áfram um það, í gær sátum við nokkrir þingmenn og sveitarstjórnarmenn af Suðurnesjunum á fundi með Ross Beaty, eiganda Magma og HS Orku, um fyrirætlanir fyrirtækisins og félagsins er varða orkusölusamninga við Norðurál. Á fundinum kom fram að forráðamenn HS Orku eru bjartsýnir á að samningar um orkusölu við Norðurál geti gengið eftir fyrir marslok. Lyftist nú brúnin á mörgum við þau orð á fundinum af því að vonleysi um að orkusölusamningar náist á milli félaganna hefur gripið marga þar sem deilan hefur verið í gerðardómi í Svíþjóð frá því í maí í fyrra. Það er gífurlega mikilvægt að þessi samningur náist. Samningamenn Orkuveitunnar hafa fyrir sitt leyti lokið samningum við Norðurál og farið með þá samninga fyrir stjórn Orkuveitunnar þannig að verið gæti að þetta langstærsta einstaka fjárfestingarverkefni gæti farið af stað á vordögum ef þessir samningar gengju fram. Þar skiptir náttúrlega mjög miklu máli að stjórn Orkuveitunnar samþykki fyrirlagðan samning frá nefndinni og að HS Orka og Norðurál nái saman eins og var að skilja á aðaleigandanum að hann væri bjartsýnn á að gæti gengið eftir, að orkusölusamningur næðist. Það yrði gífurlega mikil vítamínsprauta inn á þetta svæði og auðvitað atvinnumarkaðinn allan á suðvesturhorninu. (Forseti hringir.)