139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú einkennilega staða er komin upp að enn erum við á Alþingi að ræða Icesave. Meðvirknin felldi íslenskt samfélag, umræðustjórnmálin felldu íslenskt samfélag í hruninu. Það var alltaf verið að reyna að tala sig frá réttri niðurstöðu. Það var alltaf verið að tala sig frá lögum og reglum sem voru í gildi í samfélaginu. Nú er orðinn ótti við dómstóla í því að Íslendingar sæki rétt sinn þar sem er eyðuákvæði. Það stendur hvorki í íslenskum lögum né evrópsku regluverki að Íslendingum beri að borga þá upphæð sem er verið að bera á okkur. Það er með ólíkindum að við þurfum að standa í þessum sporum og taka þátt í þeirri meðvirkni sem ríkir hjá meiri hlutanum um að hér sé kominn langtum betri samningur. Það er ekki einu sinni hægt að vera sigurvegari í þessu máli. Auðvitað er stjórnarandstaðan, og þá fyrst og fremst Framsóknarflokkurinn, sigurvegari í Icesave-málinu vegna þess að nú höfum við sparað þjóðinni milli 400 og 500 milljarða. Þá kemur meðvirknin hjá ríkisstjórninni fram aftur, nú verði að samþykkja þennan samning vegna þess að hann sé svo langtum betri en fyrri samningur.

Frú forseti. Það er einkennileg staða sem er komin hér upp og að þurfa að hlusta á framsögumann þessa frumvarps hér, formann fjárlaganefndar, koma með gömlu hótanirnar og gömlu rökin, um að Íslendingar gætu lent í því að vera sagt upp EES-samningnum ef við göngumst ekki undir þessa skuldbindingu.

Frú forseti. Gjaldeyrishöftin eru brot á EES-samningnum. Ég spyr hv. formann fjárlaganefndar, Oddnýju Harðardóttur: Hver er skoðun hennar á því að hér er lagt til enn einu sinni að Íslendingar taki á sig greiðslubyrði án þess að það sé stafur fyrir því (Forseti hringir.) í lögum?