139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þingmanns lýsi ég því hér yfir að það fólst engin hótun í máli mínu, ég var aðeins að lýsa því í hverju þessir samningar væru fólgnir. Það hefur ævinlega verið mín skoðun að það séu miklir efnahagslegir og pólitískir hagsmunir í því fólgnir að semja um þessa skuldbindingu. Af málflutningi mínum um þetta mál hefur það ætíð mátt vera ljóst. Nú höfum við betri samning en þann eldri, hann er betri, en eftir er auðvitað að meta þann kostnað sem hefur verið í því fólginn að halda málinu óleystu. Það er til umhugsunar. Margir hafa haldið því fram að óvissa og skortur á aðgengi að fjármagnsmörkuðum geti verið verri en skuldsetningin.

Staðreyndin er að við erum að hefja okkur upp úr djúpri efnahagslægð. Stór þáttur í að koma okkur af stað, að við eygjum hagvöxt og að hjól atvinnulífsins fari að snúast eins og nauðsynlegt er, er að leysa úr þessu máli sem valdið hefur mikilli óvissu. Það er algerlega ljóst að þjóð sem ekki veit hvað hún skuldar er ekki líkleg til að skora hátt, t.d. í lánshæfismati.