139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er sagt að þetta séu ekki hótanir í þessu máli. Svo kemur hv. þingmaður í stólinn og heldur áfram með hótunarræðuna. Við höfum ekki aðgang að lánsfé, það er brot á EES-samningnum, þjóð sem veit ekki hvað hún skuldar hefur ekki aðgang að lánsfé.

Frú forseti. Það kom fram í svari í síðustu viku að t.d. ríkisábyrgð íslenska ríkisins sem hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur nú þegar sett á þjóðina er 1.300 milljarðar. Jú, víst vitum við á að giska hvað við skuldum en að bæta þessari skuld við allar hinar skuldirnar er glapræði.

Ég segi það aftur: Meðvirknin sem hefur einkennt íslenskt samfélag síðustu fjögur til fimm árin og leiddi okkur inn í hrunið er að leiða okkur inn í þennan nýja Icesave-samning á ný. Þetta er óásættanlegt. Mikil er ábyrgð þessarar ríkisstjórnar. Það er forkastanlegt að þetta skuli vera komið inn á borð aftur. (Forseti hringir.)