139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrri ágæta ræðu og ágæta lýsingu á þessari stöðu. Margt hefur batnað. Mig langar til að spyrja hv. þingmann fjögurra spurninga.

Telur hv. þingmaður, þegar hún les nefndarálitið, að Íslandi beri lagaleg skylda til að greiða Icesave-skuldbindingu innlánstryggingarsjóðs?

Í öðru lagi. Hvernig greiddi hv. þingmaður atkvæði 30. desember síðastliðinn? Getur verið að þessi samningur sé 170 milljörðum betri? Hvernig ætlar hv. þingmaður að réttlæta það fyrir kjósendum sínum að hafa samþykkt hinn fyrri samning, sem var skelfilegur?

Í þriðja lagi. Í breytingartillögu meiri hlutans er gert ráð fyrir að inn komi ákvæði til bráðabirgða um að heimilt sé að borga 26,1 milljarð kr.

Ég hef í sambandi við þetta þrjár athugasemdir.

Í fyrsta lagi. Þetta er nokkurn veginn það sama og niðurskurður ársins, bara að hafa það í huga. Þetta er nokkurn veginn það sama og niðurskurður alls ársins 2011 sem búið er að samþykkja í fjárlögum.

Í öðru lagi. Vantar ekki 650 milljarða lánsheimild til ríkissjóðs því að hann er að taka á sig 650 milljarða skuldbindingu með því að ábyrgjast lánið til Breta og Hollendinga? Hefði ekki verið eðlilegt að setja það líka inn í bráðabirgðaákvæði því að samkvæmt stjórnarskránni er bannað að skuldbinda ríkissjóð nema með fjárlögum eða fjáraukalögum?

Af hverju er þetta ekki sett inn í sérfjáraukalög? Það er ekkert sem bannar fjáraukalög mörgum sinnum á ári, og þetta liggur fyrir.

Það eru þessi fjörgur atriði sem ég ætlaði að bæta inn í, spyrja hv. þingmann um.