139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spurði hvort ég teldi það vera ljóst að samkvæmt lögum bæri íslenska ríkinu að borga þessar fjárhæðir. Ég get svarað því neitandi en ég tel hins vegar að það sé hagur íslensku þjóðarinnar að semja um þessa deilu. Ég tel reyndar að það sé nánast alltaf betra að fallast á ásættanlega samninga en að fara með mál fyrir dómstóla.

Já, samningurinn er mun betri. Og ég sagði já við gamla samningnum. Ég hef útskýrt það hér fyrr í máli mínu af hverju ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að ganga eigi til samninga um þetta mál. Ég tel að þarna séu miklir efnahagslegir hagsmunir en ekki síður pólitískir hagsmunir í samskiptum við aðrar þjóðir og það sé á ábyrgð okkar að taka almannaheill og þjóðarhag fram yfir prinsippmál.

Ég tel reyndar, þó að ljóst sé að samningurinn er mun betri, að það sé ekki alveg sanngjarnt að bera saman vaxtakjör án þess að skoða hvað hefur gerst í millitíðinni í löndunum í kringum okkur, hvað gerst hefur í efnahagsumhverfinu sem er jákvæðara. Það þarf einnig að meta kostnaðinn af því að halda málinu óleystu.

Varðandi það hvernig beri að setja skuldbindinguna eða fjárhæðirnar í bækur ríkisins þá er ég þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að í bókum ríkissjóðs birtist raunveruleg staða. Ég tel að hv. þingmaður sé sammála mér í því. En að ráðum sem ég lýsti (Forseti hringir.) hér áðan er skráningin eins og stendur í nefndarálitinu.